Hlutirnir gerast hratt hjá Heimsferðum sem tilkynntu í morgun að boðið yrði upp á 186 flugsæti til Búdapest í Ungverjalandi og jafnmarga miða á leik Íslands og Danmerkur í millirðili á EM í handbolta.
Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir að sennilega séu 30-40 miðar eftir án þess að vilja fullyrða nákvæmlega um það.
„Ég var svolítið stressaður þarna fyrst í morgun að ekkert væri að gerast en svo núna upp úr 11.30 fór allt að gerast,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.
Hann bætir við að skiljanlega hafi ferðaþyrstir þurft umhugsunartíma áður en gengið væri frá kaupum.
Það fer því hver að verða síðastur að næla sér í miða á leik Íslands og Danmerkur, sem hefst klukkan 19.30 annað kvöld. Þeir sem þó ekki ná að krækja í flugferð til Búdapest geta fylgst með beinni lýsingu hér á mbl.is.