Andlát: Magnús Guðmundsson

Magnús Jóhannes Guðmundsson.
Magnús Jóhannes Guðmundsson.

Magnús Jóhannes Guðmundsson, skíðakennari og margfaldur Íslandsmeistari í golfi og á skíðum, lést í Bandaríkjunum 16. janúar sl., 88 ára að aldri. Frá andláti hans var greint á fréttavefnum Akureyri.net.

Magnús fæddist 30. maí 1933 á Siglufirði, sonur Guðmundar Elífassonar, d. 1940, og Jóhönnu Bjargar Jónsdóttur, d. 1989.

Magnús ólst upp hjá móður sinni á Akureyri, nánar tiltekið í Lækjargötu 9 í Gilinu svonefnda. Hann varð fyrst Íslandsmeistari á skíðum 19 ára að aldri; sigraði þá í svigi þegar mótið var haldið á Akureyri árið 1953. Magnús flutti til Bandaríkjanna 1955 og var þar í tvo vetur, kom þá aftur heim og starfaði m.a. við skíðakennslu um tíma en fluttist alfarinn út á ný um miðjan sjöunda áratuginn.

Magnús varð fimm sinnum Íslandsmeistari á skíðum; 1952 í alpatvíkeppni, 1953 í svigi, 1954 í stórsvigi og 1958 í bruni og alpaþríkeppni. Hann varð einnig fimm sinnum Íslandsmeistari í golfi, fyrst 1958 og síðan var hann ósigrandi fjögur ár í röð, 1963 til 1966.

Á Akureyri.net segir enn fremur að eftirminnilegasti sigur Magnúsar á Íslandsmótinu í golfi hafi verið árið 1964 í Eyjum þegar hann lék á 10 höggum undir pari vallarins. Lék Magnús á 270 höggum og vann með 25 högga mun. Slíkur yfirburðasigur var ekki leikinn eftir fyrr en árið 2013, er Birgir Leifur Hafþórsson varð Íslandsmeistari á 10 höggum undir pari.

Magnús var tvíkvæntur. Fyrri eiginkona var Vicky Guðmundsson, börn þeirra eru Erika og Markus. Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Susy Guðmundsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert