Ríkið verði með eigið öryggisfjarskiptanet

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, var málshefjandi umræðunnar um …
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, var málshefjandi umræðunnar um sölu Símans á Mílu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala Símans á Mílu ehf. til franska fjárfestingasjóðsins Ardian var til umfjöllunar á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um málið og voru skiptar skoðanir á ágæti samningsins. Rifjuðu þingmenn meðal annars upp söluna á Símanum árið 2005 og sögðu margir að um stórt þjóðaröryggismál væri að ræða. Þá voru skiptar skoðanir um ágæti þess að erlendir aðilar eignuðust fyrirtækið. Forsætisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins veltu upp hugmyndum um að koma öryggisinnviðum undir einn hatt ríkisins. Flestir virtust þó sammála um að lagaumgjörð í kringum sölu stórra þjóðhagslegra mikilvægra innviða eins og fjarskipta þyrfti að vera skotheld.

Það var Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, sem var málshefjandi og gerði hún meðal annars athugasemdir við tímarammann á sölunni og að verið væri að selja innviði til að leigja þá aftur, en Síminn leigir innviðina til næstu 20 ára. Sagði hún engan hafa hagnast á slíku fyrirkomulagi og að þetta kæmi neytendum illa.

Ekki þekktir fyrir að bera almannahagsmuni fyrir brjósti

Þá fór hún jafnframt yfir sögu eigenda Mílu og spurði hvort fjárfestar sem hefðu komist yfir Símann sem minnihlutaeigendur á móti lífeyrissjóðum hefðu fórnað hagsmunum þjóðarinnar fyrir skammtímahagsmuni sína. „Síðan má ekki gleyma þeim sem seldu sinn hlut. Það eru ekki aðilar sem eru þekktir að bera almannahagsmuni fyrir brjósti. Stoðir, sem áttu 16% hlut í Mílu standa á bak við þessa sölu. Stoðir eru FL Group og sú grúppa er Íslendingum vel kunn frá hruni þar sem hún átti stóran þátt í skaðanum sem þjóðin varð fyrir. Telja ráðherra og ríkisstjórn eðlilegt að jafn lítill hópur og raun ber vitni geti ráðskast með þessum hætti með grunnstoðir þjóðarinnar og setti ríkisstjórnin einhvern þrýsting á lífeyrissjóðina sem eiga 62% í Mílu að standa gegn sölunni í nafni þjóðarhags, eða er enn og aftur bara spilað með fjármagninu,“ sagði Ásthildur í ræðu sinni.

Gerði hún einnig athugasemdir við að ómögulegt væri að finna út hvaða fjárfestar væru á bak við fjárfestingasjóðinn Adrian. Vakti Ásthildur einnig athygli á því að annar sjóður, Digital colony hefði á síðasta ári keypt fjarskiptainnviði frá Sýn og Nova. Sagði hún að þessir tveir sjóðir hefðu áður átt í góðu samstarfi erlendis og spurði í hvaða stöðu það setti íslenska neytendur og hvort hægt væri að treysta að sjóðirnir myndu ekki eiga í samstarfi á markaðinum hér.

Síminn hafði samband um miðjan ágúst

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var til svara í þinginu. Sagði hún að Síminn hefði haft samband við sig 13. ágúst vegna mögulegrar sölu án þess að kaupandi lægi fyrir. Í framhaldinu hafi Katrín óskað eftir fundi með þjóðaröryggisráði og síðan rætt málið við ríkisstjórnina. Síðar hafi komið í ljós hver kaupandinn væri. Sagði hún að ekki hafi orðið af frumvarpi sem tæki á þessum atriðum á síðasta þingi, en samkomulag hafi náðst milli ríkisins og Mílu vegna sölunnar og varðaði þjóðhagslegt mikilvægi Mílu, en skrifað var undir samkomulagið 13. desember. Í því ljósi hafi ekki verið nauðsynlegt að koma hinu frumvarpinu í gegn, en að það verði lagt fram í vor.

Uppfært 18:00: Í fyrir ræðu sinni sagði Katrín að Síminn haft samband við sig 13. ágúst vegna ákveðins kaupanda. Í síðari ræðu leiðréttir hún sig svo og talar um að legið hafi fyrir um sölu, en ekki nákvæmlega hver kaupandi væri 13. ágúst. Staðfestir hún í samtali við mbl.is að frásögnin í síðari ræðu sé rétt. Hefur fréttinni verið breytt samkvæmt því.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín sagði að við skoðun á Ardian hafi meðal annars verið kallað eftir því hvaða fjárfestar væru þar á bak við og hverjir væru stjórnendur. Hafi komið í ljós að samtals 190 alþjóðlegir stofnanafjárfestar ættu hlut í sjóðinum, meðal annars vátryggingafélög. Sagði hún að ekki hafi þótt ástæða til að gera athugasemdir við slíkan eigendahóp og að félögin gætu ekki skipt sér af einstaka fjárfestingum. Þá væri málið núna á borði Samkeppniseftirlitsins.

Katrín sagði að umræðan um hvort eðlilegt væri að innviðafyrirtæki sem þessi væru í einkaeigu hefði verið tekin fyrir löngu og vísaði til sölunnar á Símanum árið 2005. Það hefði verið allt önnur ríkisstjórn sem þá stýrði. Nú væri hins vegar aðalatriðið að huga að öryggismálum.

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að þetta mál snerist um öryggi og samkeppni fyrir neytendur. Spurði hún hvað myndi gerast ef innviðirnir myndu drabbast niður og hvort hægt væri að gera kröfu um uppbyggingu innviðanna. Sagði hún ekki að finna heimildir fyrir því að Fjarskiptastofa myndi meta slíkt. Sagði hún að erfitt væri að spóla til baka með söluna, en að Alþingi gæti passað upp á lagaumgjörðina til að gæta öryggis og hagsmuna landsmanna.

Öryggisfjarskiptum undir einn hatt hjá ríkinu

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir að þetta mál varðaði öryggi og almannahagsmuni, en í hans augum snýr það einnig að mikilvægi fyrir nýsköpun og tæknimál. Sagði hann að ná mætti þessum þáttum saman með því að klára verkefni sem væri þegar langt komið. Þannig ættu stjórnvöld að vera með sitt eigið öryggisfjarskiptanet. Vísaði hann til þess að ríkið ætti þegar í orkufjarskiptum, öryggisfjarskiptum, innviðum Neyðarlínu, innviðum Ríkisútvarpsins og fleiri kerfum hjá opinberum stofnunum. Sagði Vilhjálmur að ekki myndi kosta mikið að klára þetta og koma undir sama hatt og þar með létta á spennu vegna fjarskiptaöryggis.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðar tók Katrín aftur til máls og tók undir með Vilhjálmi og sagði þetta vera framhald á því sem áður hefði verið gert. Nefndi hún kaup á meirihluta í Neyðarlínunni, kaup á Auðkenni, eignarhlut í Farice og öðrum stofnunum. Sagði hún mikilvægt að halda áfram á þessari braut og að horfa ætti til sjálfstæðrar innlendrar greiðslulausnar.

Settu sig ekki upp á móti sölunni

Tveir þingmenn Viðreisnar, þau Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Sigmar Guðmundsson, tóku til máls og sögðust ekki vera á móti sölunni sjálfri. Hins vegar þyrfti alltaf að rýna viðskipti þjóðhagslega mikilvægra innviða og að netöryggi væri mikilvægt fyrir landsmenn. Sögðu þau áhyggjuefnið hafa verið undirbúning stjórnvalda og að Katrín ætti eftir að gera betur grein fyrir því hvernig tryggja eigi þessa hagsmuni. Vísaði Sigmar meðal annars til þess að ríkiseign innviða væru ekki alltaf loforð fyrir því að staðið væri í nægilegri uppbyggingu. Vísaði hann til raforkukerfisins og að nú væri komið að skerðingum sem hefði mátt koma við með betri raforkuflutningakerfi.

Þyrfti að vera hægt að taka fyrirtækið yfir

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði Mílu ekki venjulegt fyrirtæki. Það skipti almenning máli og það væru efnahagslegir og varnarhagsmunir þar á bak við. Sagði hún að gera þyrfti ríkar kröfur á fjárfestana og að setja þyrfti reglur um að hægt væri að taka fyrirtækið yfir ef neyðaraðstæður sköpuðust eða almenningur yrði fyrir skaða. Þá sagði hún, líkt og Ásthildur hafði nefnt, að málið í heild vekti upp spurningar um lífeyrissjóði sem óvirka eigendur fyrirtækja og hvort þeir þyrftu ekki að hafa áhrif í þjóðhagslega mikilvægum málum sem þessum.

Rifjaði Oddný einnig upp sölu Símans árið 2005 og sagði Samfylkinguna hafa lagst gegn því máli. Það sama var að segja um Bjarna Jónsson, þingmann Vinstri grænna sem sagði að Vinstri græn hefðu verið á móti sölunni á sínum tíma og hann teldi það enn hafa verið mistök.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert