Fyrirtæki virðast geta athugasemdalaust farið framhjá 5. mgr. 7. gr. reglugerðar stjórnvalda, sem kveður á um að Orkustofnun velji rafmagnssala fyrir viðskiptavini sem ekki velja rafmagnssala sjálfir, sem dæmi þá sem flytja í nýtt húsnæði.
Reglugerðin er hugsuð á þann hátt að neytandinn sé færður til ódýrasta salans en svo virðist sem önnur sé raunin.
„N1 rafmagn rukkar sína viðskiptavini um 75% meira en þeir segjast vera að gera,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, sem vakið hefur athygli á málinu.
Orkustofnun velur raforkusala m.a. fyrir fólk sem festir kaup á nýju húsnæði. Fyrir valinu verður líklega sá sem býður upp á lægsta auglýsta listaverðið, 6,44 krónur í boði N1 rafmagn. Þá er annað verð notað sem ekki er birt opinerlega þegar viðskiptin eru komin á, að sögn Berglindar.
„Það er spurning hver tilgangurinn er með reglugerðinni. Í öllu falli er hann ekki sá að láta þá sem velja ekki rafmagn fara á háan taxta,“ segir Berglind. Orkustofnun sér um framkvæmd reglugerðarinnar og hefur ekki breytt fyrirkomulaginu þrátt fyrir athugasemdir sem hafa borist.
Átta fyrirtæki selja raforku í beinni samkeppni til heimila og fyrirtækja; N1 rafmagn (Íslensk orkumiðlun), Fallorka, HS orka, Orka Heimilanna, Orka Náttúrunnar, Orkubú Vestfjarða, Orkusalan og Straumlind.
Í vor settu stjórnvöld fram tillögu að breytingu á reglugerðinni til þess að þróa hana áfram - umsagnir bárust en reglugerðinni var aldrei breytt. „Nú er Orkustofnun að vinna að nýjum leiðbeiningum á grunni upphaflegrar og gallaðrar reglugerðar sem í raun festa hana enn betur í sessi,“ segir Berglind.
Að lokum telur hún að vænlegast að neytendum sé gert auðveldara með að velja rafmagnssala og réttast væri að huga að hagsmunum neytenda og leyfa þeim að ákveða sjálfir við hvern þeir stunda viðskipti. Lesendur geta borið saman raforkuverð hér.