Tveir fangaverðir hlutu alvarlega áverka, þar á meðal höfuðáverka og beinbrot, þegar fangi í fangelsinu á Hólmsheiði réðst á þá um helgina. Þeir voru fluttir á sjúkrahús, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.
Þar er rætt við Pál Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar, sem segir að lögregla hafi verið kölluð til. Mennirnir hafa báðir verið útskrifaðir af sjúkrahúsi. Þá hefur fanginn verið fluttur í annað fangelsi.
Í fréttinni er Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, einnig tekinn tali. Hann segir að fangelsið sé ekki nógu vel búið til að tryggja öryggi fanga og fangavarða. Sömuleiðis segir hann að úrræðaleysi vegna veikra fanga geti reynst hættulegt.
Ekki hefur verið staðfest hvort umræddur fangi hafi glímt við einhver veikindi.