Einstaklingum sem sæta smitgát í kjölfar smitrakningar verður ekki lengur skylt að fara í hraðpróf við upphaf og lok smitgátar frá og með morgundeginum. Þeir þurfa samt að fara gætilega í 7 daga og í PCR-próf ef einkenni koma fram. Fólk sem er í einangrun fær einnig takmarkaða heimild til útiveru.
Þetta kemur fram í nýrri reglugerð sem heilbrigðisráðherra hefur staðfest.
Breytingarnar á reglum um smitgát eru gerðar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Í minnisblaði hans til ráðherra kemur fram að af tæplega 16.500 einstaklingum sem sættu smitgát á fyrstu 16 dögum þessa árs greindist aðeins um 1% með Covid-smit í kjölfar prófs. Stór hluti þessa hóps voru börn á skólaaldri, að því er kemur fram í tilkynningu.
Samkvæmt gildandi reglum mega einstaklingar í einangrun vegna Covid-19 fara út á svalir eða í einkagarð við heimili sitt ef heilsa leyfir. Með breytingu heilbrigðisráðherra verður viðkomandi heimilt að fara í gönguferð í nærumhverfi heimilis síns ef heilsa leyfir.
Þeir þurfa að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum og mega ekki fara á fjölsótt svæði. Miðað er við tvær gönguferðir á dag, að hámarki 30 mínútur í senn.
Ekki hægt að bjóða fullorðnum sem eru í einangrun í sóttvarnahúsum útiveru en slíkt verður í boði fyrir börn.