Nýtt spálíkan Landspítala og Háskóla Íslands um þróun kórónuveirufaraldursins gefur fyrirheit um betri tíð en fyrri líkön, að því er fram kemur á vef Landspítala.
„Greinileg teikn eru á lofti um að Ómíkron-afbrigði veirunnar valdi minni veikindum og leiði til færri gjörgæsluinnlagna“, segir þar.
Þó er tekið fram að mikilvægt sé að fylgjast með þróuninni næstu daga en smitfjöldi hefur verið á uppleið undanfarið. Segir á vef spítalans að fjöldi daglegra smita í samfélaginu hafi bein áhrif á hversu margir þurfa að leita til spítalans með Covid-smit.
„Það verður verkefni næstu vikna að sinna margvíslegum heilsufarsvanda þessa hóps en halda jafnframt áfram að minnka líkur á smitdreifingu með sóttkví, einangrun og smitrakningu.“
Í kvöldfréttum RÚV í gær sagði Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, að líkanið gefi tilefni til þess að sóttvarnaaðgerðir í samfélaginu verði tempraðar, „án þess þó að missa þetta úr höndunum á okkur.“