Óvíst er hvaða áhrif þétting byggðar mun hafa á framboð atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt liggur ekki fyrir sundurliðun á því hvernig heimildir til uppbyggingar atvinnuhúsnæðis skiptast eftir eðli starfseminnar sem það á að rúma.
Samþykktar heimildir til að reisa atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hljóða upp á 1,8 milljónir fermetra og eru níu af hverjum tíu fermetrum í Reykjavík og Hafnarfirði.
Jón Kjartan Ágústsson, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir útlit fyrir að uppbygging á atvinnuhúsnæði til ársins 2024 verði undir meðaltalinu 1999-2019.
Þá megi ætla að skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði reist innan áhrifasvæðis borgarlínu en þyngri iðnaður og vöruskemmur á jaðrinum. Meðal jaðarsvæða séu Esjumelar í Reykjavík og Vellirnir í Hafnarfirði en á báðum svæðum sé mikið um ónýttar byggingarheimildir.
Fjallað er um fyrirhuguð atvinnusvæði í ViðskiptaMogganum í dag en úthlutun lóða mun m.a. styrkja Vallahverfið í sessi.