Staðan á leikskólum borgarinnar sögð „mjög alvarleg“

„Það eru okkur vonbrigði hvað það gengur mun hægar að ráða í stöður á leikskólum nú en í fyrra. Þetta er þó staðan á öllu höfuðborgarsvæðinu. Ráðningar gengu mjög vel í ágúst og september en svo var eins og það kæmi stopp,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í minnisblaði Helga sem lagt var fram í skóla- og frístundaráði borgarinnar í síðustu viku kemur í ljós að mönnun leikskóla borgarinnar hefur versnað á liðnum mánuðum. Nú á eftir að ráða í 55,6 stöðugildi en í október vantaði fólk í 46,4 stöðugildi. „Núna hefur mönnun áhrif á inntöku 23 barna í sjö leikskólum. Að auki á eftir að ráða í samtals 12,3 stöðugildi vegna afleysinga er varða undirbúning, veikindaafleysingar og önnur störf, en þau stöðugildi hafa ekki áhrif á inntöku barna í leikskóla,“ segir í minnisblaði Helga.

Þessi staða veldur starfsfólki á leikskólum miklum áhyggjum eins og kemur fram í bókun Lindu Óskar Sigurðardóttur, áheyrnarfulltrúa starfsfólks á leikskólum í ráðinu. Hún segir að „mjög alvarleg staða“ blasi við leikskólum borgarinnar. „Það er ljóst að ástandið hefur áhrif á faglegt starf leikskólanna. Ekki er endalaust hægt að krefjast þess að starfsfólk hlaupi hraðar. Það þarf að hlúa að því starfsfólki sem er í leikskólanum og bæta hag þess og vinnuaðstæður,“ segir Linda.

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir að nú sem áður sé stærsta verkefni sveitarfélaganna að fjölga leikskólakennurum. Leikskólastigið hafi þróast hratt sem skólastig og í raun allt of hratt til þess að geta staðið almennilega undir sér. „Ákvarðanir sveitarfélaganna um að taka sífellt inn yngri og yngri börn án þess að hugsa málið fyllilega til enda hefur aukið á vandann og komið okkur öllum í erfiða stöðu,“ segir Haraldur og bætir við að fyrir vikið hafi ekki tekist að fjölga leikskólakennurum hlutfallslega á síðustu árum. „Ofvöxtur kerfisins umfram efni og gæði er í boði allra sveitarfélaga landsins,“ segir formaðurinn og bætir við að fyrirhugaðar breytingar hjá Reykjavíkurborg sem eiga að reyna að brúa bilið milli leikskóla og fæðingarorlofs muni bara þenja kerfið út frekar en ekki bæta aðstæður starfsfólks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert