Brot 85 ökumanna voru mynduð við umferðareftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Breiðholtsbraut frá þriðjudegi fram til dagsins í dag, en fylgst var með ökutækjum sem ekið var Breiðholtsbrautina í austurátt á gatnamótum við Stekkjarbakka.
Á þessum tveimur sólarhringum fóru 12.712 ökutæki þessa akstursleið. Í tilkynningu lögreglunnar segir að þetta hafi því verið hlutfallslega fáir ökumenn sem óku of hratt, en þetta jafngildir um 0,7% þeirra sem fóru þarna um.
Meðalhraði hinna brotlegu var 79 km/klst en þarna er 60 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 91.