Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum í desember lýsingu fyrir gerð deiliskipulags fyrir Sveinstún á Sauðárkróki þar sem gert er ráð fyrir 50 nýjum íbúðum.
Skipulagssvæðið er við suðurmörk bæjarlandsins á milli Sæmundarhlíðar og Sauðárkróksbrautar og sunnan Skagfirðingabrautar. Gert er ráð fyrir að á umræddum reit verði mótuð ný og aðlaðandi íbúðarbyggð, meðal annars til að svara aukinni eftirspurn eftir lóðum, að því er kemur fram á vef sveitarfélagsins.
Íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur farið fjölgandi frá árinu 2016 en þá hafði þeim fækkað töluvert frá árinu 2010. Árið 2016 voru íbúar sveitarfélagsins alls 3.902 en þann 1. janúar 2021 hafði þeim fjölgað í 4.084.
Þá hefur þróun íbúðaverðs gert að verkum að einstaklingar hafa frekar ákveðið að ráðast í nýbyggingar heldur en að fjárfesta í eldri húsum.
Sveitarstjórnin samþykkti einnig á fundi sínum í síðustu viku að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Árkíl 2 á Sauðárkróki. Deiliskipulagstillagan felur í sér stækkun á byggingarreit vegna fyrirhugaðrar stækkunar á leikskólanum sem þar er staðsettur.
Á Sauðárkróki fjölgaði íbúum frá úr 2.542 í 2.643, eða um 101 á árunum 2015 til 2021. Samfara þessari aukningu hefur eftirspurn eftir leikskólaplássi aukist.