Dregur úr fólki

Ólafur Sveinsson.
Ólafur Sveinsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ástand innviðanna hefur slæm áhrif á íbúa og atvinnurekstur þeirra. Það dregur úr þeim máttinn og viljann til að gera eitthvað, fólk gefst upp á atvinnurekstri og fer að hugsa um að flytja í burtu,“ segir Ólafur Sveinsson, fagstjóri atvinnuþróunar á atvinnu- og byggðaþróunarsviði Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

Hann segir að símamálin séu alvarlegasta málið á Fellsströnd og Skarðsströnd í Dölum og vísar meðal annars til frásagnar Guðrúnar Birnu Blöndal á Valþúfu á Fellsströnd í Morgunblaðinu í gær. Hún er með sex börn og sá fram á það að vera símasambandslaus í 3-5 daga þannig að ekki yrði hægt að ná í foreldrana ef eitthvað gerðist í skólabíl eða skóla barnanna.

„Það er búið að færa okkur aftur um áratugi í öryggismálum með því að það ástand geti skapast að fólk verði símasambandslaust dögum saman. Þetta hefði ekki gerst á meðan fastlínukerfið var við lýði. Stjórnvöld verða að tryggja að fólk geti alltaf treyst á að hafa símasamband,“ segir Ólafur.

Ólafur og fleiri hafa verið að reyna að komast í samband við stjórnvöld til að vekja athygli á lélegum innviðum á Fellsströnd og Skarðsströnd. Hann segir að búið sé að berjast lengi fyrir því að fá þriggja fasa rafmagn. Nefnir sem dæmi að þar sé stórt fyrirtæki í mjólkurframleiðslu, kúabú, sem þurfi þriggja fasa rafmagn. Það hafi gengið illa. Bent hafi verið á að raflínurnar væru nýjar þótt þær væru þrjátíu ára gamlar. Telur hann raunar að lausn sé í sjónmáli í sumar.

Margir hafi reynt að fá lagfæringar á vegunum, að sögn Ólafs, ef svo fínt orð megi nota um slóðana sem þar liggi um. Fólk sem reki fyrirtæki, svo sem kúabú, hótel eða aðra ferðaþjónustu og sauðfjárbú, þurfi að geta komið aðföngunum og gestunum til sín og afurðunum frá sér með sómasamlegum hætti og skólabílarnir þurfi að komast með börnin. Getur Ólafur þess að þótt þetta hafi verið snjóléttasti vetur í manna minnum hafi skólabílstjórinn nokkrum sinnum ekki treyst sér til að aka vegna hálku.

Auk fyrirtækja í landbúnaði er vaxandi ferðaþjónusta á Fellsströnd og Skarðsströnd og aukin frístundabyggð. „Nútímalegur rekstur krefst nútímalegra aðstæðna,“ segir Ólafur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert