Reykjavíkurborg var ekki heimilt, með vísan til húsaleigulaga, að gera að skilyrði úthlutunar almenns félagslegs leiguhúsnæðis að leigjendur tækju reglulega á móti starfsmanni sveitarfélags á heimili sínu gegn þeirra vilja.
Þetta kemur fram á vef umboðsamanns alþingis.
Þar segir, að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest ákvörðun Reykjavíkurborgar um að úthluta almennu félagslegu leiguhúsnæði sem svokölluðu „áfangahúsnæði“ en í því fólst m.a. að gerður var samningur um eftirfylgd við leigutaka. Í samningnum, sem var hluti húsaleigusamnings, fólst m.a. að leigutaki skyldi taka á móti starfsmanni Reykjavíkurborgar tvisvar í mánuði ella gæti húsaleigusamningurinn tafarlaust fallið úr gildi.
Taldi umboðsmaður að ákvæði húsaleigulaga, sem byggt hefði verið á, hefðu ekki að geyma heimild til þess að gera úthlutun húsnæðis háða slíku skilyrði. Íþyngjandi ráðstafanir stjórnvalda yrðu að eiga sér stoð í lögum. Eftir því sem ákvörðun teldist meira íþyngjandi fyrir borgarana, ekki síst ef hún fæli í sér inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi, því meiri kröfur væru gerðar að þessu leyti. Hafa yrði í huga að um væri að ræða sérstök skilyrði til viðbótar almennum reglum laga um leiguhúsnæði svo og húsreglum sem tækju til allra íbúa viðkomandi húsnæðis.
Úrskurðarnefnd velferðarmála hefði ekki leyst úr málinu í samræmi við lög. Mæltist umboðsmaður til að hún tæki það aftur til meðferðar, ef eftir því yrði leitað, og leysti þá úr því í samræmi við álitið. Þá var Reykjavíkurborg einnig sent álitið með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort ástæða væri til að taka reglur um úthlutun almenns félagslegs leiguhúsnæðis sem áfangahúsnæðis til skoðunar.