Kristján B. Jónasson bókaútgefandi seldi Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur eiginkonu sinni 20% hlut í fasteign þeirra, nokkrum dögum eftir að fyrirtæki hans, Crymogea, var tekið til gjaldþrotaskipta í héraðsdómi. Í kjölfar sölunnar var gerður kaupmáli sem aftur var þinglýst, þar sem sérstaklega var tilgreint að fasteignin væri hennar séreign. Gjaldþrotaskiptin voru staðfest 7. apríl 2021 og kaupmálinn var undirritaður 14. júlí og lagður inn til þinglýsingar hinn 19. sama mánaðar.
Salan á hlut Kristjáns, sem sögð var nema 13 milljónum króna, leiddi til þess að Arion banki, helsti kröfuhafi Crymogeu, felldi niður persónulega gjaldþrotakröfu gegn Kristjáni sem komin var til meðferðar í Landsrétti. Var það gert á grundvelli dómsáttar þar að lútandi. Kristján var í persónulegum ábyrgðum fyrir sumum af skuldum Crymogeu.
Heimildir Morgunblaðsins herma að óverulegar eignir hafi fundist í búi Crymogeu þegar búið var tekið til gjaldþrotaskipta en það skuldaði höfundum og öðrum samstarfsaðilum tugi milljóna króna. Hafa nokkrir þeirra lýst kröfum í búið en útilokað er talið að þeir fái nokkuð upp í þær þar sem Arion banki hafði tekið veð í þeim eignum sem fundust í búinu, en það var bókalager.
Lýstar kröfur í búið nema að sögn kunnugra um 50 til 60 milljónum króna.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.