Löglegt að skila skömminni

Dr. Margrét Einarsdóttir
Dr. Margrét Einarsdóttir Ljósmynd/Háskóli Íslands

Þolendur mega skila skömminni, að mati dr. Margrétar Einarsdóttur, prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík. En hún var meðal þeirra sem héldu erindi á málþingi háskólans í dag sem bar yfirskriftina „#MeToo og réttarkerfið".

Tilefni málþingsins var sú umdeilda staða að konur hafi undanfarin ár fundið sig knúnar til að segja frá reynslu sinni af kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum og fella málin þannig í farveg samfélagslegrar umræðu en ekki réttarkerfisins. 

Konurnar sem stóðu að málþinginu eru sammála um að þessi þróun sé afleiðing þess að kerfið nái ekki utan um brotin. 

„Þrettán prósent réttlæti"

Fjörutíu prósent íslenskumælandi kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi eða kynferðisofbeldi á lífsleiðinni, samkvæmt niðurstöðum úr umfangsmikilli rannsókn á vegum Háskóla Íslands sem ber heitið Áfallasaga kvenna. 

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður og eigandi á lögmannsstofunni Rétti, fór yfir tölfræði úr ársskýrslum Stígamóta. Þar kom fram að um það bil ein af hverjum tíu konum sem leita til stígamóta kæra mál sín til lögreglu. Þá enda aðeins þrettán prósent þeirra mála með sakfellingu. 

Hún segir hátt hlutfall niðurfellingu mála á þessu sviði vera áhyggjuefni og hefur höfðað mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu vegna ófullnægjandi rannsóknar og vanrækslu ríkisins á jákvæðum skyldum sínum til að vernda borgarana.

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir er einn eigandi lögmannastofunnar Réttar.
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir er einn eigandi lögmannastofunnar Réttar. Ljósmynd/Aðsend

„Saklaus uns sekt er sönnuð“ gildir ekki hér

Margrét Einarsdóttir fékkst við spurninguna, hvaða þýðingu „saklaus uns sekt er sönnuð,“ hefði í málum þar sem einstaklingar tjá sig opinberlega um kynferðisbrot.

Þessi regla er dregin af ákvæði stjórnarskrárinnar sem tekur fyrir það að stjórnvöld geti refsað einstaklingi nema brot hans sé fyllilega sannað. Hún gildir því ekki um einstaklinga eða fjölmiðla.

Þau réttindi sem vegast á í MeToo umræðunni eru aftur á móti tjáningarfrelsi einstaklinga og friðhelgi einkalífs þeirra, sem er meðal annars ætlað að veita vernd gegn ærumeiðingum. 

Tilefni málþingsins var sú umdeilda staða að konur hafi undanfarin …
Tilefni málþingsins var sú umdeilda staða að konur hafi undanfarin ár fundið sig knúnar til að segja frá reynslu sinni af kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum og fella málin þannig í farveg samfélagslegrar umræðu en ekki réttarkerfisins.

Rúmt tjáningarfrelsi þolenda

Margrét rakti dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sem og íslenskra dómstóla, sem sýndu fram á að þolendum heimilis- eða  kynferðisofbeldis, sé ljáð rúmt tjáningarfrelsi, þar sem efni frásagna þeirra eigi ríkt erindi í almenna þjóðfélagsumræðu.

Þá er samt gerð sú krafa að ummælin sé ekki tilhæfulaus og að sá sem lætur þau falla, sé í góðri trú um réttmæti þeirra.

Einnig er gerður greinarmunur á staðhæfingum um staðreyndir og gildisdómum. Mörkin geta þó verið óljós.  Ef þolandi segir frá upplifun sinni væri það í flestum tilfellum gildisdómur og er tjáningarfrelsið rýmra þegar um gildisdóma er að ræða. 

Margrét telur það aftur á móti vafasamara að ótengdur aðili teljist í góðri trú og að ummælin séu ekki tilhæfulaus.

Ekki gerður greinarmunur á ofbeldi og ósæmilegri hegðun

„Það væri betra ef réttarkerfið myndi virka fyrir þolendur og við gætum upprætt þessa ómenningu sem kynbundið ofbeldið er. Það hafa alltaf verið afleiðingar... hingað til bara fyrir þolendur.“  

Líkt og staðan er í dag má einstaklingur sem brýtur á öðrum kynferðislega, eiga þess von að missa mannorð sitt og afkomu. Margrét segir þetta góð varnaðaráhrif sem munu vonandi leiða til fækkunar á brotum af þessu tagi.

Vandinn við þessa stöðu er sá að ekki er hægt að útiloka að þetta gerist af ósekju, að mati Margrétar. Það sé alvarlegt að í dag sé ekki gerður greinarmunur á ósæmilegri hegðun eða ofbeldi. Hið síðarnefnda hefur alvarlegri afleiðingar fyrir þolendur.

Ævilöng refsing eðlileg í öllum tilfellum?

Margrét segir að það sé mikilvægt að horfast í augu við spurninguna um hvenær menn eigi afturkvæmt. Hvort ævilöng refsins, líkt og sú að geta aldrei framar stundað atvinnu sína, sé eðlileg í tilfellum þar sem um er að ræða ósæmilega hegðun?

„Við viljum að menn bæti ráð sitt en samfélagið þarf líka að fyrirgefa. Það þarf byltingu til að ýta hlutum af stað en samtal til að festa breytingar í sessi.“

Samfélagsleg skjálftahrina

Dr. María Rún Bjarnadóttir líkti breytingum á kynferðisafbrotakafla laganna við eldgos. Það safnist upp kvika í kjölfar skjálfta. Þegar þrýstingurinn verði nægilega mikill, gjósi.

 „Við erum í skjálftahrinu núna sem er búin að standa yfir í íslensku samfélagi nokkuð lengi“

Hún velti upp spurningunni hvort lagasetning geti verið lausnin.

„Við í jafnréttisparadísinni á Íslandi þurfum að endurskoða lögin okkar með reglulegu millibili.“ 

Hugtakið „kynferðisleg áreitni“ kom fyrst inn í íslensk lög árið 1992. María bendir á að ákvæði um kynferðislega áreitni megi finna á þremur ólíkum stöðum í löggjöfinni og að ekki sé samræmi á milli. „Löggjafinn þarf að tala um hvað honum finnist vera kynferðisleg áreitni.“

Dr. María Rún Bjarnadóttir
Dr. María Rún Bjarnadóttir Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka