Héraðsdómur Norðurlands eystra birti í dag niðurstöðu í máli sem snerist um ummæli sem látin voru falla á samfélagsmiðlinum Snapchat. Þar sakaði stúlka, í einkaskilaboðum til vinkonu sinnar, dreng um að hafa nauðgað sér og að hann hafi einnig nauðgað öðrum stelpum.
Í niðurstöðu héraðsdóms voru ummæli stúlkunnar um að drengurinn hafi nauðgað sér látin standa enda ætti gerendum ekki að vera falið þöggunarvald með fulltingi dómstóla.
Ummælin þar sem hún segist vita til þess að hann hafi einnig nauðgað öðrum stelpum voru dæmd dauð og ómerk.
Þá kemur fram að dómurinn meti það sem svo að fyrri ummælin séu byggð á reynslu stúlkunnar sem ekki hafi verið sýnt fram á að sé ósönn en þau seinni séu byggð á sögusögnum.
Málið snerist um tvö ummæli stúlkunnar sem hún hafði sent í einkaskilaboðum á Snapchat til vinkonu sinnar. Hún hafði séð mynd af vinkonu sinni og drengnum á samfélagsmiðlum og spurt hana hvað hún væri að gera með umræddum dreng.
Í framhaldinu sendi hún eftirfarandi á vinkonuna í því skyni að vara hana við drengnum.
„ok hann nauðgaði mer hann er ástæðan að ég þurfti að flytja til ak“
„allt í lagi er bara að fara ykkur við því að ég er ekki eina gellan sem að hann hefur gert þetta við“
Skjáskot af ummælum stúlkunnar komust í hendur drengsins og leituðu foreldrar hans til lögmanns. Barst stúlkunni kröfubréf þar sem farið var fram á að stúlkan viðurkenndi að ummælin tvö væru ómerk og að hún myndi draga þau til baka.
Í kjölfarið að stúlkunni barst kröfubréf kærði hún drenginn fyrir kynferðisbrot, sem rannsakað var af lögreglu sem meint kynferðisleg áreitni. Voru hin meintu brot sögð hafa átt sér stað á árunum 2018 og 2019 í litlu þorpi þar sem stúlkan og drengurinn bjuggu bæði.
Gögn málsins þóttu ólíkleg til sakfellingar og var rannsókn á málinu felld niður á síðasta ári.
Í málsástæðum drengsins segir að ummælin hefðu vegið með alvarlegum hætti að æru hans og væru ærumeiðandi aðdróttanir. Þá kemur fram í málsástæðum stúlkunnar að hún hafi viljað vara vinkonu sína við drengnum og að ummælin hefðu verið send í einkaskilaboðum, eingöngu ætluð henni og ekki til birtingar.
Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að ef fallist hefði verið á kröfu stefnanda um ómerkingu þess hluta ummæla stefndu þar sem hún tjáir sig um að drengurinn hafi brotið á henni og honum dæmdar miskabætur fyrir ummælin, fæli það í sér að þolendum afbrota væri óheimilt að tjá sig um reynslu sína nema að geta sýnt fram á að brotið hafi átt sér stað.
„Til þess er hér að líta að orð stendur gegn orði um meint brot stefnanda gegn stefndu. Ef fallist yrði á kröfu stefnanda um ómerkingu þessa hluta ummæla stefndu og honum dæmdar miskabætur fyrir þau, fæli það í sér að þolendum afbrota væri óheimilt að tjá sig um reynslu sína nema geta sýnt fram á nægilega sterkar líkur fyrir því að brotið hafi raunverulega átt sér stað.
Slík niðurstaða fæli í sér þá óviðunandi stöðu að gerendum væri falið þöggunarvald yfir þolendum með fulltingi dómstóla. Enginn mætti deila persónulegri og sannri reynslu sinni án þess að geta fært sönnur á atvikin, sem í mörgum tilvikum er ómögulegt gegn neitun geranda.“
Í niðurstöðunni segir þó að hið sama gildi ekki um það þegar aðili tjáir sig um atvik á grundvelli sögusagna.