„Þetta eru svo hrikaleg vonbrigði, maður á ekki orð til að lýsa því,“ segir Karen Einarsdóttir, eiginkona landsliðsmarkvarðarins Björgvins Páls Gústavssonar, sem greindist í gær með Covid-19 ásamt þeim Elvari Erni Jónssyni og Ólafi Andrési Guðmundssyni.
Björgvin hefur að sögn Karenar fulla trú á hinum tveimur markvörðunum sem koma til með að fylla í hans skarð, þeim Ágústi Elí Björgvinssyni og Viktori Gísla Hallgrímssyni og hún er bjartsýn á framhald mótsins:
„Maður þorir nú ekki að spá of miklu en verður maður ekki að vona að þeir klári þennan milliriðil? Við skulum alla vega reyna að hafa hann skemmtilegan,“ segir Karen sem vonast til þess að sjá Björgvin aftur á mótinu þegar hann hefur lokið einangrun.
Ísland tryggði sér sæti í milliriðli á EM í Ungverjalandi með fræknum sigri á gestgjöfum mótsins á þriðjudag. Fyrsti leikur í milliriðli er á móti Dönum í kvöld. Fjölskylda Björgvins hefur fylgst vel með leikjunum á mótinu og mun halda því áfram þrátt fyrir fjarveru Björgvins.
„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Við undirbúum alltaf gott kósíkvöld þegar leikirnir byrja og horfum saman, ég og krakkarnir,“ segir Karen en þau Björgvin eiga fjögur börn á aldrinum eins til átta ára.
„Við erum með eina eins árs, fjögurra ára tvíbura og svo eina átta ára. Það er heldur betur gaman að fylgjast með þeirri elstu. Hún er sjálf farin að æfa handbolta og er bæði þvílíkt spennt og stressuð og varð fyrir sérstaklega miklum vonbriðgum með smitið. Þær litlu horfa mismikið og leika sér eitthvað á milli. En þau fagna svo þegar eitthvað skemmtilegt gerist. Þau gleðjast alltaf ef þau sjá pabba sinn verja.“
Björgvin varði einmitt tvö mikilvæg skot undir lok leiksins við Ungverja og Karen neitar því ekki að hafa glaðst sérstaklega þá. „Já, stundum þarf ekki nema eitthvað svona í lokin. Þetta var ótrúlega spennandi leikur að horfa á og það gekk yfirhöfuð vel hjá öllum.“
Búast má við að landsliðið fái áfram góðan stuðning í höllinni í Búdapest. Handknattleikssamband Íslands tilkynnti í gær að sambandið hefði tryggt sér 250 miða á leiki Íslands í milliriðli EM.