N1 hafi haft viðskiptavini að féþúfu

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna telur að vinnuaðferðir N1 rafmagns séu villandi og að viðskiptavinir fyrirtækisins eigi rétt á að fyrirtækið endurgreiði oftekinn rafmagnskostnað.

„Við teljum að útfrá því að fyrirtækið var ekki búið að tilgreina þetta verð í verðskrá sinni, heldur var með annað verð, og var valið sem raforkusali til þrautavara útfrá ákveðnu verði til viðskiptavina sem þeir þá máttu eiga von á að greiða, á fólk að okkar mati rétt á að fyrirtækið endurgreiði mismuninn,“ segir Breki í samtali við mbl.is.

Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastýra orku náttúrunnar sagði við mbl.is í gær að N1 rafmagn rukki viðskiptavini sína um 75% meira en þeir segjast gera og benti á að Orkustofnun velji raforkusala m.a. fyrir fólk sem festir kaup á nýju húsnæði og verði þá valinu sá sem býður upp á lægsta auglýsta listaverð fyrir valinu, 6,44 krónur í boði N1 rafmagn. Þeir hins vegar rukka um 11,16 krónur.

Munu aðstoða félagsmenn við að sækja rétt sinn

Breki segir félagsmenn hafa undanfarna daga haft samband við Neytendasamtökin og þeim hefur verið ráðlagt að senda kröfu til N1 rafmagns um endurgreiðslu. „Geri þeir það ekki þá aðstoðum við félagsmenn við að leita réttar síns,“ segir Breki.

Neytendasamtökin fékk þessi mál á borð til sín í haust og í desember sendu þau ábendingu til Neytendastofu, til Orkustofnunar og til Samkeppniseftirlitsins.

„Við teljum að það sé villandi hið minnsta ef að fyrirtæki er valið á grundvelli ákveðins verðs en innheimti svo allt annað verð og þá tel ég það líka vera villandi ef fyrirtæki státar sig af því að vera með lægsta rafmagnsverðið að það sé jafnframt með það dýrasta,“ segir Breki og bætir við:  

„Við bentum líka Orkustofnun á að það væri mjög bagalegt að fyrirtæki væri valið út á eitt verð en innheimti svo allt annað verð án þess að láta kóng eða prest vita.“

Ýmislegt hægt að kaupa fyrir 30.000 krónur

Breki segir að um dæmigert neytendamál sé að ræða að því leytinu til að þarna sé fyrirtæki sem hafi kannski ekkert mikla fjármuni af hverjum og einum einstaklingi en það safnist þó þegar saman kemur.

„Þetta eru margar milljónir og hugsanlega tugir milljóna ef þú tekur alla og miðað við meðalneyslu heimilis á rafmagni þá er munur á verðinu sem þeir eru að selja á og því sem þeir auglýsa sig á þá nemur þetta á þriðja tug þúsunda króna og það er nú ýmislegt hægt að kaupa sér fyrir 30.000 krónur,“ segir Breki og bætir við:

„Ef það er svo þungur kross að bera að fá til sín svona marga viðskiptavini, af hverju hafa þeir þá ekki óskað eftir því að vera leystir undan þeim byrðum? Það hafa þeir ekki gert heldur hafa þeir, mér liggur við að segja, haft þessa viðskiptavini að féþúfu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert