Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sakfellt tvo unga menn fyrir líkamsárás og kynþáttaníð sem var framið í samverknaði á Húsavík í júní 2020. Annar mannanna var dæmdur í sex mánaða fangelsi en hinn í þrjá mánuði. Báðir dómarnir eru skilorðsbundnir.
Mennirnir voru að auki dæmdir til að greiða manninum sem þeir réðust á 400.000 kr. í miskabætur og 200.00 kr í málsvarnarlaun.
Fram kemur í dóminum, sem féll 13. desember en var birtur í dag, að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hafi í janúar í fyrra ákært mennina fyrir fyrir kynþáttaníð og líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 28. júní 2020, ráðist í sameiningu gegn manni vegna kynþáttar hans og húðlitar.
Segir að annar árásarmannanna hafi tekið manninn hálstaki og haldið honum meðan hinn kastaði stól að honum hann og felldi hann síðan í jörðina og hélt honum þar meðan hinn árásarmaðurinn sparkaði ítrekað í líkama hans. Þeir kölluðu manninn einnig öllum illum nöfnum m.a. „skítugan útlending“ og „svarta drasl“.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni hlaut margvíslega áverka, m.a. á andliti.
Tekið er fram að við aðalmeðferð málsins hafi báðir ákærðu játað sök en þeir höfnuðu bótakröfu. Fram kemur í dómnum að annar mannanna hafi verið 18 ára en hinn 17 ára þegar þeir réðust á manninn. Dómarinn segir að síðbúin játning þeirra komi þeim til nokkurra málsbóta sem og litið hafi verið til ungs aldurs þeirra. Á móti komi að árásin hafi verið tilefnislaus.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni krafðist þess að mennirnir yrðu dæmdir til að greiða sér 925.000 kr. í miskabætur. Fram kemur í dómi héraðsdóms, að þar sem maðurinn tók sjálfur þátt í átökum við árásarmennina, fyrst með orðaskaki, en síðan með því að hrinda á móti, kasta að þeim glasi og bíta annan þeirra í höndina, þá séu miskabætur hæfilega ákveðnar 400.000 kr.