Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að farið sé að hvessa víða um land og að færð á vegum á norðvesturhorninu sé farin að versna.
Búist er við því að bálhvasst verði einkum vestan og norðan til fram undir morgun. Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra.
Hríðarbyl er spáð á flestum fjallvegum. Í nótt og á morgun er reiknað með þéttum éljum vestan til, og þá einnig á láglendi. Blint verður og skafrenningur á fjallvegunum.
„Núna er farið að hvessa duglega og á næsta klukkutímanum ætti að vera orðið ansi hvasst víða á landinu. Fyrst í stað verður þetta rigning alla vega hérna suðvestan til á landinu, en síðan í nótt mun þessi úrkoma breytast í éljagang og snjókomu á köflum,“ segir Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur.
Búist er við því að veðrið gangi yfir á morgun.
„Veðrið mun ekki ganga yfir fyrr en síðdegis á morgun. Núna í kvöld er þetta frekar mikill vindur og rigning eða slydda, en svo á morgun verður þetta vindur og éljagangur eða snjókoma.“