Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að innviðaráðherra skapi svigrúm fyrir gerð Súðavíkurganga á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi í núgildandi samgönguáætlun 2020– 2034. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2022.
Í tillögunni segir að í fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024 sé ekki að finna heildstæða áætlun um jarðgangagerð á Íslandi og því ekki gert ráð fyrir Súðavíkurgöngum. Önnur brýn jarðgangaverkefni bíði úrvinnslu bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.
„Gerð Súðavíkurganga er afar brýn út frá byggðasjónarmiðum en ekki síður út frá öryggissjónarmiðum. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni. Vegagerðin og Snjóflóðasetur Veðurstofunnar fylgjast vel með öllum hættumerkjum og hafa gefið út viðvaranir og lokað hlíðinni ef svo ber undir. Árið 2018 féllu sem dæmi ríflega 60 flóð niður á veg samkvæmt talningu Vegagerðarinnar en bent skal á að fjölmargar viðvaranir og lokanir eru gefnar út á hverjum vetri til að hindra slys á fólki. Íbúar á svæðinu eru stöðugt uggandi um öryggi sitt og hafa bundist samtökunum „Dauðans alvara, Súðavíkurhlíð-Kirkjubólshlíð“ þar sem skipst er á skoðunum og leiðbeiningar og varúðartilkynningar sendar til meðlima,“ segir í tillögunni.
Bent er á að yfir vetrarmánuðina er vegurinn um Súðavíkurhlíoð inn Djúp helsta samgönguæð íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Í úttekt um mögulegar úrbætur á leiðinni kemur meðal annars fram að fyrir þá sem ferðast daglega um Óshlíð eða Súðavíkurhlíð er snjóflóða- og grjóthrunshættan nálægt því að tvöfalda árlegar dánarlíkur í umferðinni (miðað við meðal dánarlíkur Íslendinga í umferðinni).
Það megi því fullyrða að vegur um Súðavíkurhlíð sé einn af hættulegustu þjóðvegum landsins, ef ekki sá hættulegasti.