Orkubú Vestfjarða og RARIK búa sig undir að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til þess að tryggja húshitun á Vestfjörðum og á Seyðisfirði. Forstjóri Orkubúsins telur raforkuskort leiða tæplega 500 milljóna króna kostnað yfir fyrirtækið á komandi þremur mánuðum og að honum verði óhjákvæmilega velt yfir á neytendur á Vestfjörðum til lengri tíma litið. Höggið jafngildi 70 þúsund króna reikningi á hvert mannsbarn á svæðinu.
Orkuskerðingin sem fyrirtækin standa frammi fyrir kemur í kjölfar þess að Landsvirkjun hafði einnig tilkynnt öllum fiskimjölsverksmiðjum landsins að þær myndu ekki fá keypta skerðanlega orku úr kerfum fyrirtækisins. Hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna áætlað að það leiði til þess að 20 milljónum lítra af olíu verði brennt við bræðsluna á yfirstandandi vertíð.
RARIK verður ekki aðeins fyrir höggi vegna olíubrennslu við upphitun Seyðisfjarðarkaupstaðar heldur einnig vegna þess að fyrirtækið hefur haft tekjur af flutningi raforku til bræðslanna á Austurlandi. Metur fyrirtækið tjón sitt í heildina á 300 milljónir, miðað við að loðnuvertíðin verði jafn stór og væntingar hafa verið um.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.