Keypti kjól og fékk síma í kaupbæti

Anna Kristín Magnúsdóttir, eigandi verslunarinnar Kjólar og konfekt á Laugavegi.
Anna Kristín Magnúsdóttir, eigandi verslunarinnar Kjólar og konfekt á Laugavegi. Ljósmynd/Aðsend

Kona af landsbyggðinni, sem hafði pantað sér flík frá versluninni Kjólar og konfekt á Laugavegi 92 rétt fyrir síðustu jól, rak upp stór augu þegar hún opnaði sendinguna en í henni reyndist einnig vera sími.

Um var að ræða vinnusíma verslunarinnar sem starfsmaður hafði óvart pakkað inn með flíkinni í jólaösinni, eins og Anna Kristín Magnúsdóttir, eigandi Kjóla og konfekts, segir frá í samtali við mbl.is.

Pökkuðu vinnusímanum óvart inn í jólaösinni

Hún segir fyrsta verk starfsmanna verslunarinnar á morgnanna vera að undirbúa allar pantanir sem versluninni berast og að rétt fyrir jól sé sérstaklega mikið af pöntunum sem þarf að undirbúa.

„Pökkunaraðstaðan okkar er við tölvuna, þar sem síminn á helst að vera, og það hefur pottþétt einhver verið að svara í símann, tala og pakka inn á sama tíma. Svo hefur jafnvel kúnni komið inn í búðina í millitíðinni og starfsmaðurinn bara lagt símann frá sér á borðið eftir að hafa klárað símtalið.“

Innt eftir því segir hún starfsmenn verslunarinnar lítið hafa kippt sér upp við að síminn hafi týnst fyrst um sinn enda í nægu öðru að snúast og þeir með annan síma til vara sem þeir gátu notað.

„Við notuðum bara hinn símann og pössuðum að hlaða hann svo við yrðum ekki alveg símalausar.“

Lágu í hláturskasti yfir því hvar síminn fannst

Það hafi svo ekki verið fyrr en eftir áramót, þegar útsölurnar voru byrjaðar, sem síminn komst loksins í leitirnar, að sögn Önnu.

„Maðurinn minn er kennari í MK og hann sat á kaffistofunni í vinnunni þegar búðin barst í tal. Þá bendir kollegi hans honum á að kona hafi birt færslu á Facebook-síðunni sinni þar sem hún sagðist hafa fengið síma í kaupbæti hjá okkur.“

Síðar kom svo í ljós að konan hafði þegar sent Önnu tölvupóst til að láta hana vita að hún væri með símann en tölvupósturinn hafði flokkast sem ruslpóstur og því hafi Anna ekki séð hann.

Hún segir það hafa vakið mikla kátínu meðal starfsmanna verslunarinnar þegar upp komst um hvar síminn hafði týnst og hvar hann væri niðurkominn.

„Þetta var alveg geggjað því undanfarnir dagar hafa verið frekar daprir hjá öllum. Þegar við sáum skjáskot af færslu konunnar þá lágum við bara allar í hláturskasti yfir því hvað maður getur verið utan við sig. Það gladdi okkur þó mest að síminn væri í góðum höndum.“

Senda konunni glaðning fyrir að passa símann

Spurð segir hún konuna sem fékk símann þó blessunarlega ekki hafa þurft að taka á móti neinum pöntunum enda hafi síminn fljótlega orðið straumlaus eftir að hún fékk hann í hendurnar.

„Hún hefði samt áreiðanlega staðið sig vel í því að svara. Mér skilst að hún sé svona kjólakona svo hún veit ábyggilega helling um þá.“

Anna hafi svo skrifað færslu á Facebook-síðu Kjóla og konfekts þar sem hún lét viðskiptavini sína vita að síminn væri fundinn. Þá hafi konan, sem býr úti á landi, sent henni skilaboð um að hún hygðist koma símanum aftur í búðina við fyrsta tækifæri.

„Hún var alla vega það heiðarleg að hafa samband við okkur þó svo að við sáum ekki skilaboðin frá henni strax. Við munum klárlega senda hanni smá glaðning fyrir að passa svona vel upp á símann fyrir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert