Sumarið 2019 sást til kinda í Flatey á Breiðafirði sem ýttu kríu af hreiðri sínu og átu síðan egg hennar. Frá þessu er greint í Náttúrufræðingnum undir fyrirsögninni Sauðfé étur kríuegg og unga. Þar kemur fram að hér á landi hafi örfá tilvik verið skráð um slíkt afrán þar sem kindur urðu uppvísar að eggja- eða ungaáti. Ætla megi að það sé algengara en þau tilvik sýni. Afrán sauðfjár á eggjum og ungum villtra fugla sé einnig þekkt erlendis.
Höfundar greinarinnar eru Ævar Petersen, Sverrir Thorstensen, Scott Petrek og Kane Brides og segir í greininni um atvikið sem vitnað var til hér í upphafi: „Sumarið 2019 urðum við vitni að því að ær og tvö lömb hennar umkringdu kríu á hreiðri. Fuglinn sat sem fastast uns annað lambið hnippti í hann þannig að krían þeyttist af hreiðrinu og tók flugið. Tóku kindurnar sig þá til og átu eggin. Á meðan renndi fuglinn sér í kindurnar eins og kríur eiga vanda til en þær létu ekki segjast.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.