Andlát: Ingibjörg Ragnheiður Magnúsdóttir

Ingibjörg Ragnheiður Magnúsdóttir.
Ingibjörg Ragnheiður Magnúsdóttir.

Ingibjörg Ragnheiður Magnúsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, andaðist á Hjúkrunarheimilinu Grund að kvöldi 20. janúar sl., 98 ára að aldri.

Ingibjörg fæddist 23. júní 1923 á Akureyri, dóttir hjónanna Magnúsar Péturssonar kennara og Guðrúnar Bjarnadóttur húsfreyju. Hún lauk gagnfræðaprófi frá MA, íþróttakennaranámi frá Íþróttaskóla Björns Jakobssonar á Laugarvatni 1943 og húsmæðraskólanámi í Uppsölum í Svíþjóð 1948. Þá lauk hún prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands 1961 og stundaði framhaldsnám í hjúkrunarkennslu og spítalastjórn við Sygeplejeskolen í Árósum 1964-65. Síðar lauk hún stúdentsprófi við öldungadeild MH.

Ingibjörg kenndi fimleika á Siglufirði og í Reykjavík, sund á Suðureyri, í Miðfirði og víðar. Hún tók við stöðu hjúkrunarforstjóra við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þegar hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræðináminu og var þar í tíu ár. Hún kom á fót fyrsta sjúkraliðanámi hér á landi og brautskráði fyrstu sjúkraliðana vorið 1966 og fann raunar upp nafnið sjúkraliði. Árið 1971 hóf hún störf í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og var skrifstofustjóri 1989-1993.

Ingibjörg sat í bæjarstjórn Akureyrar 1966-71. Hún var einn af brautryðjendum námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og gegndi stöðu námsbrautarstjóra 1975-90.

Ingibjörg gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, m.a. fyrir Zontaklúbbana á Íslandi. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 1988. Enn fremur er hún heiðursfélagi Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og Hjúkrunarfélags Íslands. Árið 2007 hafði Ingibjörg forgöngu að stofnun Rannsóknarsjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur og heyrir sjóðurinn undir styrktarsjóði Háskóla Íslands. Sjóðurinn hefur styrkt doktorsnema í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum til rannsóknastarfs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert