Sextán einstaklingar eru í framboði á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík í vor. Helgina 12.-13. febrúar fer fram flokksval þar sem frambjóðendur í efstu sætin fer fram.
Þar á meðal eru sjö sitjandi borgarfulltrúar flokksins og tveir varaborgarfulltrúar en sjö ný nöfn bætast við.
Kosning í efstu sex sætin bindnandi en restinni stillt upp
Kosning í sex efstu sætin er bindandi fyrir uppstillingarnefnd að teknu tilliti til reglna flokksins um að ekki halli á hlut kvenna. Framboðsfrestur rann út á hádegi í dag en eftirfarandi einstaklingar eru í framboði:
- Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður menningar, íþrótta- og tómstundaráðs
- Ólöf Helga Jakobsdóttir, veitingakona á Horninu
- Pétur Marteinn Urbancic Tómasson, lögfræðingur og formaður Hallveigar
- Sabine Leskopf, borgarfulltrúi, þýðandi, túlkur og háskólakennari
- Sara Björg Sigurðardóttir, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur og formaður íbúðaráðs Breiðholts
- Skúli Helgason, borgarfulltrúi og formaður skóla- og frístundaráðs
- Stein Olav Romslo, stærðfræðikennari í Hagaskóla
- Þorleifur Örn Gunnarsson, umsjónarkennari í Langholtsskóla
- Þorkell Heiðarsson, líffræðingur og formaður Íbúaráðs Árbæjar
- Aron Leví Beck, borgarfulltrúi, byggingafræðingur, málarameistari og myndlistamaður
- Birkir Ingibjartsson, arkitekt og úrbanisti
- Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri
- Ellen Jaqueline Calmon, borgarfulltrúi
- Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga
- Guðný Maja Riba, kennari í Breiðholtsskóla
- Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og formaður velferðarráðs
Kosningarétt í flokksvalinu eiga flokksfélagar og skráðir stuðningsaðilar Samfylkingarinnar með lögheimili í Reykjavík, sem eru rétt skráðir þann 4. febrúar næstkomandi.