„Fráleitt“ að hann hafi átt í þátt í innbrotinu

Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech, hafnar því að hann …
Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech, hafnar því að hann hafi komið að innbroti á ritstjórnarskrifstofur Mannlífs. Ljósmynd/Aðsend

Róbert Wessman hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir fráleitt að halda því fram að hann hafi komið að innbroti inn á ritsjórnarskrifstofu Mannlífs.

Segist Róbert knúinn til þess að tjá sig um innbrotið þar sem ýjað sé að því að hann hafi komið að innbrotinu en þar vísar Róbert að líkindum til skrifa Reynis Traustasonar ritstjóra Mannlífs en hann sagði í morgun að nokkrum fréttum um „ónefndan auðmann“ hafi verið eytt í kjölfar innbrotsins.

Myndi aldrei koma í hug að beita téðum aðferðum

„Mér myndi aldrei koma í hug að beita nokkrum af þeim aðferðum sem nú er hermt upp á mig,“ segir í yfirlýsingunni.

Róbert segir árásir á fjölmiðla vera aðför að lýðræðinu og eigi ekki að líðast en hins vegar hefur hann kært umfjöllun Reynis og Mannlífs til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands þar sem hann trúi því og treysti að þær leiðir sem fólk hefur til að verjast ósanngjarnri umfjöllun sé í gegnum slíkt ferli, þar sem bein samskipti hafi hingað til ekki dugað.

Yfirlýsingin í heild sinni

Í gær var brotist inn á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs. Ég vona svo sannarlega að lögreglan taki málið föstum tökum og nái þeim sem þetta gerðu sem allra fyrst. Árásir á fjölmiðla eru aðför að lýðræðinu og eiga ekki að líðast.

Ég er knúinn til að tjá mig um málið þar sem að það hefur verið ýjað að því að ég hafi komið að þessu innbroti sem er fráleitt. Mér hefur þótt umfjöllun Reynis Traustasonar og Mannlífs um mig og þau fyrirtæki sem ég stýri afar óvægin, ófagleg og marg ítrekað ósönn. Ég hef ítrekað óskað eftir leiðréttingum á rangfærslum og að fá ákveðin persónugreinanleg gögn afhent.

Hingað til hefur þó hvorki verið brugðist við óskum um leiðréttingar né afhendingu gagna. Mér myndi aldrei koma í hug að beita nokkrum af þeim aðferðum sem nú er hermt upp á mig. Ég hef hins vegar kært umfjöllun Reynis og Mannlífs til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands því ég trúi því og treysti að þær leiðir sem fólk hefur til að verjast ósanngjarni umfjöllun sé í gegnum slíkt ferli þar sem bein samskipti hafa hingað til ekki dugað. Ég vona að Reynir fái öll sín gögn aftur og að tjón hans verði bætt.

Virðingarfyllst, Róbert Wessman

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert