Björgunarsveitir frá Akureyri og Varmahlíð luku nú á fimmta tímanum við útkall á Öxnadalsheiði sem barst upp úr klukkan 14. Tilkynnt var um tvo bíla fasta í snjó, en þeir voru á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar.
Ekki var vitað hvernig færðin var né hvar bílarnir voru staðsettir og því voru björgunarsveitir sendar úr báðum áttum.
Rétt um klukkutíma eftir að útkall barst kom björgunarsveitarfólk að bílunum efst í Bakkaselsbrekku. Með góðri samvinnu gekk vel að losa bílana og var ökumönnum þeirra boðin fylgd austur yfir heiðina, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.
Þeir gátu þá haldið för sinni áfram og voru komnir niður af heiðinni ásamt björgunarsveitabílum fyrir stuttu. Öxnadalsheiði hefur verið lokuð síðan klukkan 22 í gærkvöldi.