Þrátt fyrir að appelsínugul veðurviðvörun hafi verið í gildi í gærkvöld var nóttin róleg að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Útköll hafi einungis komið í gærkvöld og svo snemma í morgun.
Hann segir í samtali við mbl.is að einungis hafi verið farið í svokölluð fokverkefni í gærkvöld og snemma í morgun en engin umferðartengd verkefni.
Björgunarsveitir sinntu verkefnum á Bíldudal, Siglufirði, Suðureyri, Þingeyri og Grundarfirði í gærkvöld og í morgun.
Í tilkynningu sem Landsbjörg sendi frá sér nú fyrir hádegi segir að björgunarsveitir hafi „byrgt glugga á íþróttahúsinu á Suðureyri sem brotnað höfðu í veðrinu í nótt, á Þingeyri þurfti að veiða upp lausamuni sem fokið höfðu í höfnina og á björgunarsveit á Grundafirði var kölluð út klukkan 11 þegar þakplötur voru að fjúka af bóndabæ í grendinni“.
Í tilkynningunni er varað við vonskuveðri á landinu sem á að ganga yfir landið í dag. Fjallvegir eru víða lokaðir og veðurviðvaranir í gildi.