Allar leiðir til afléttingar á sóttvarnaaðgerðum verða nú skoðaðar í samráði við sóttvarnalækni og ljóst er að afléttingar eru í vændum innanlands.
Þetta segir í grein sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, skrifuðu og birtist á Vísi í morgun.
„Brýnt er því að skoða hvernig megi létta á sóttvarnaráðstöfunum til að halda samfélaginu sem mest gangandi. Í samráði við sóttvarnalækni eru nú allar mögulegar afléttingar í skoðun með hliðsjón af skynsemi og öryggi. Næstu skref eru að aflétta neyðarstigi spítalans. Áður en það er gert verðum við að vera fullviss um að slíkt sé óhætt. Það verður gert að vel ígrunduðu máli, með hliðsjón af nýjustu spálíkönum og með hliðsjón af gögnum frá okkar færustu sérfræðingum,“ segir í greininni stuttu áður en bætt er við:
„Fram undan eru því afléttingar.“
Willum og Guðlaug segja að lokametrar yfirstandandi bylgju séu fram undan og því sé mikilvægt að missa ekki sjónar á þeim markmiðum sem eiga að nást.
Frumskylda stjórnvalda er sögð vera sú að allir geti sótt sér viðunandi heilbrigðisþjónustu og því sé forgangsverkefnið að tryggja öruggt heilbrigðiskerfi um leið og tekist verður á við faraldurinn.
Gullhamrar eru slegnir í garð heilbrigðisstarfsfólks í greininni allri, hugviti þess hampað, seiglu og dugnaði.
Meðal annars er Covid-göngudeild Landspítalans hrósað og hún sögð vera hryggjarstykkið í baráttunni við veiruna.
„Það er ljóst að bjartari tímar eru í kortunum og við þurfum að stíga varfærin skref í átt að afléttingum. Þrátt fyrir að einkenni ómikron séu vægari og minna sé um sjúkrahúsinnlagnir þá er fólk enn að veikjast. Eiginleikar ómikron veirunnar valda því að mikið er um smit á meðal barna og ungmenna, með tilheyrandi áhrifum á fjölskyldur og samfélagið í heild,“ segir í greininni.
„Fram undan eru því afléttingar en við þurfum áfram að vera varkár og feta leiðina út með stuttum en öruggum skrefum.“