Stefnan var afhent ólögráða dreng

Jónas Þórir Jónasson hjá Knoll og Tott ehf.
Jónas Þórir Jónasson hjá Knoll og Tott ehf. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það hefur enginn getað sagt mér hvort það var löglegt að birta ólögráða syni mínum stefnu sýslumanns vegna gjaldþrotaskipta á einkahlutafélagi mínu. Allir sem ég hef spurt eru þó sammála um að það hafi verið siðlaust,“ segir Jónas Þór Jónasson, eigandi og framkvæmdastjóri Knoll og Tott ehf. Fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta 15. desember en þau felld niður 10. janúar.

„Bréfið var birt syni mínum á heimili mínu en hann lagði það frá sér og bréfið týndist. Ég sá það aldrei. Þegar ég fékk hringingu frá skiptastjóra heyrði hann að ég kom af fjöllum,“ segir Jónas. Hann kveðst hafa skuldað lífeyrissjóði iðgjöld og verið búinn að fá ítrekunarbréf vegna 380 þúsund króna skuldar við sjóðinn.

„Ég var alltaf að bíða eftir stórri greiðslu, eins og gengur og gerist í þeirri starfsemi sem ég er í, viðhaldi og viðgerðum fasteigna. Það hefur hægst á greiðslum í þessu Covid-ástandi. Ég ákvað að láta annað ganga fyrir og gerði upp við undirverktaka og birgja, hugsaði með mér að lífeyrissjóðurinn ætti meiri sjóði en þeir. Það væri þá frekar hægt að semja við hann. Ef ég hefði vitað að málið væri komið þetta langt hefði ég reynt að semja um skuldina eða bara borgað.“

Skiptastjórinn áttaði sig á stöðunni, sem Jónas segir að sé ekki sjálfgefið. Honum þykir óeðlilegt að lífeyrissjóður geti knésett félag í rekstri fyrir ekki hærri skuld. „Mér finnst að það þurfi að vera eitthvert lágmark skulda til að það sé hægt að skella öllu í lás og loka fyrirtæki,“ segir hann.

„Við fengum Covid um jólin meðan þetta gekk allt á. Þá slekkur Síminn á netinu hjá fyrirtækinu. Ég var að reyna að vinna í reikningum og hringdi í Símann. Þá var mér sagt að fyrirtækið væri gjaldþrota og búið að loka á viðskiptin. Ég spurði hvort hægt væri að gera rétthafabreytingu og var sagt að skiptastjóri þyrfti að ganga í það. Þegar fyrirtækið fór aftur í gang kom nettengingin aftur, en ég var rukkaður um tímabilið sem hún var lokuð! Ég þakka fyrir að þurfa ekki að standa í svona alla daga,“ segir Jónas. Hann er þakklátur skiptastjóra og héraðsdómi fyrir góð vinnubrögð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka