Takmarkanir höfðu ekki tilætluð áhrif

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, segir að takmarkanir hafi ekki …
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, segir að takmarkanir hafi ekki náð heildarfjölda smita niður. Hins vegar hefði faraldurinn líklega farið í veldisvöxt, hefði ekkert verið gert. Nú er hann í línulegum vexti. Ljósmynd/Lögreglan

Ekki er sýnilegt að hertar sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til fyrir viku hafi náð tilætluðum árangri að sögn Más Kristjánssonar, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalans.

Í grein sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, skrifuðu saman og birtist á Vísi í morgun kom fram að afléttingar væru í vændum. 

Már segir að bregðast þurfi við niðurstöðum þeirra gagna sem liggja fyrir um Ómíkron-afbrigðið, sem veldur vægari veikindum.

Samsuða þriggja tillagna ekki virkað sem skyldi – veldisvöxtur ef ekkert hefði verið að gert

Nú er vika liðin síðan gripið var til tíu manna samkomutakmarkana og börum skellt í lás. Hafa þessar aðgerðir haft þau áhrif sem þeim var ætlað að hafa?

„Markmiðið með þessum aðgerðum var að ná heildarfjölda tilfella niður. Hvað það varðar, þá er ekki sýnilegt að það hafi gerst. Hins vegar hefur faraldurinn gengið mest meðal ungs fólks og hefur þannig haft áhrif inn á vinnustaði líka,“ segir Már og á við sóttkví og einangrun foreldra.

Sóttvarnalæknir lagði fram þrjár tillögur að aðgerðum og segir Már að leiðin sem varð fyrir valinu hafi verið samsuða þeirra:

„Þessi samsuða hefur reynst vera gagnslaus, með tilliti til þessa fjölda í samfélaginu. Ef ekkert hefði verið að gert þá hefði þetta sennilega haldið áfram í veldisvexti, nú er þetta í línulegum vexti,“ segir Már. 

Spítalinn bregst við gögnum – verður þó áskorun

Spurður um afstöðu til afléttinganna segir Már:

„Þessi veikindi eru klárlega ekki eins íþyngjandi og önnur afbrigði hingað til. Þannig að við þurfum að bregðast við með þeim hætti að geta farið að sinna þeim hefðbundnu verkefnum sem eru fyrir hendi,“ segir Már. Mörg verkefni hafa setið á hakanum hjá spítalanum vegna Covid. 

Þetta verður nokkur áskorun að sögn Más, þar sem um 10% smita eru af völdum delta-afbrigðisins og þegar fjöldi smita er um 1.200 til 1.500 á dag geti delta-smitin verið á annað hundrað. 

„Góðu fréttirnar eru þær að það er mjög stór hluti fólks örvunarbólusettur, sem ver fyrir þessu,“ segir hann en bætir við að örvunarbólusettir séu ekki varðir fyrir smiti en líklegt að veikindi verði vægari.

Már segir lánið hafa verið með okkur hvað varðar spítalann og verkefni hafi verið viðráðanlegri. Þó þurfi að taka með í reikninginn að kalla hafi þurft starfsfólk frá einkafyrirtækjum og einkastofum og yfir 30 einstaklingar sendir af spítalanum á dvalarstofnanir víðsvegar um landið svo fátt eitt sé nefnt.

„Það hefur verið hægt að halda starfsemi spítalans í jafnvægi hvað varðar þessi bráðu viðfangsefni,“ segir hann. 

Ráðherra og forstjóri vilji stíga skrefin til baka 

„Það er ennþá fullt af verkefnum sem við erum ekki að sinna. Það sem ég held að forstjóri og ráðherra séu að tala um í sinni grein er að nú þurfum við að fara að stíga skrefin til baka,“ segir Már.

Áskorun verði að standa vörð um að smit komi ekki upp á spítalanum, samhliða afléttingum í samfélaginu sem muni vafalaust leiða til fjölgunar tilfella, að sögn Más. „Staðan hjá okkur á spítalanum er alltaf tengd fjölda tilfella í samfélaginu,“ segir hann.

En að „stíga skrefin til baka“ – áttu þarna við að stjórnvöld gætu lagt fram einhvers konar langtímaáætlun þar sem farið verður í að aflétta einangrun og sóttkví að lokum? Líkt og hefur verið gert í Færeyjum og Írlandi, og Bretar ætla að gera 24. mars?

„Ég held að það séu allir mjög áhugasamir um að setja eitthvað slíkt fram. En það mun alltaf takmarkast af því hvernig framvindan verður. Þetta er tveggja ára gamall faraldur og ef það er eitthvað sem einkennir hann þá eru það óvæntir atburðir. Ef þú ert að spyrja mig hvort ég haldi að öllum óvæntum atburðum í þessum faraldri sé lokið þá ætla ég bara að segja að ég vona það. En ég veit það ekki.“

Í hverju felast þessar afléttingar? Grein ráðherra og forstjóra skilur eftir einhverjar spurningar.

„Við erum á neyðarstigi, við erum með fullt af utanaðkomandi fólki, við erum ekki með neina valstarfsemi eða í algjöru lágmarki. Þannig að afléttingar felast í því, og það er stærsta áskorunin, hvernig best er að standa að því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert