„Jökullinn er á stöðugri hreyfingu og þeirri þróun þurfum við að fylgja eftir í okkar starfsemi,“ segir Birgitta Björg Jónsdóttir, rekstrarstjóri Into the Glacier. Fyrirtækið, sem er dótturfélag Arctic Adventures, stendur að baki ísgöngunum í Langjökli sem eru vinsæll viðkomustaður ferðafólks.
Þegar best lét í ferðaþjónustunni komu þangað um 60.000 manns á ári og vonir standa til að þegar heimsfaraldur veiru er genginn yfir verði gestirnir enn fleiri. Til að svo megi verða þarf að fylgja þróun í náttúru og veðráttu vel eftir.
Í þróunarstarfi ferðaþjónustu er mikilvægt að skapa nýjungar út frá því að fólk snúi til baka með jákvæðar minningar og sterka upplifun. „Við fáum hingað gesti víða að úr veröldinni og þegar fólkið jafnvel kemur hingað í heimsókn númer tvö vitum við að vel hefur tekist til. Formúlan er rétt, en þar eru náttúran, farartæki og góð fararstjórn lykilatriði,“ segir Birgitta.
Ísgöngin eru í norðvestanverðum Langjökli, ekki langt frá hábungu jökulsins sem er í 1.355 metra hæð. Á marghjóla ofurstórum fjallatrukkum, upphaflega þýskum hernaðartækjum, tekur akstur frá þjónustumiðstöðinni í Húsafelli að göngunum um það bil klukkustund. Er þá fyrst ekið eftir Kaldadalsvegi, svo farið um grófan malarveg að jökulsporði og síðan klifið upp hjarnbreiður að anddyri ganganna sem eru í 1.260 m hæð yfir sjávarmáli.
Starfsfólk verkfræðistofunnar Eflu og Arngrímur Hermannsson fjallamaður hófu árið 2010 athugun á því hvort útbúa mætti ísgöng í Langjökli, eftir að hugmyndir um slíkt höfðu verið settar fram og kynntar. Verkefnið var nokkur ár í þróun og 2013 var samið um við fjárfestingarsjóð á sviði nýjunga í ferðaþjónustu á Íslandi að taka við keflinu.
Snemma árs 2014 var svo hafist handa um að grafa göngin sem eru rúmlega 500 metra löng og mynda lykkju, 40 til 50 metra undir yfirborði jökulsins. Mannvirki sem þetta á sér ekki hliðstæðu í veröldinni, svo vitað sé.
Heimamenn úr Borgarfirði önnuðst gröft ganganna á sínum tíma og á þeim fjórtán mánuðum sem verkið tók mokuðu þeir um 5.500 rúmmetrum af snjó. Áður en að sjálfum munna ganganna kemur er fyrst farið um 150 metra langt yfirbyggt bogalaga fordyri.
Þegar inn í íshöllina sjálfa kemur blasir við umhverfi sem minnt gæti á vísindaskáldsögu eða geimvísindi. Hér geta líka framkallast í huganum myndir sem til urðu við lestur á bók Frakkans Jules Vernes, Leyndardómum Snæfellsjökuls , ævintýrasögu margra kynslóða.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 22. janúar.