Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að samkvæmt skimun fyrirtækisins á raunverulegri útbreiðslu kórónuveirunnar í samfélaginu hafi um 20% Íslendinga undir fertugu verið búnir að greinast með Covid-19 fyrir tæpum mánuði. Kári býst við því að kórónuveirufaraldrinum verði lokið hér á landi í byrjun apríl.
Þetta segir Kári í samtali við mbl.is.
Hann segir hlutfall þeirra sem hafa fengið veiruna lægra eftir því sem fólk er eldra. Þetta er meðal niðurstaðna fyrri skimunar Íslenskrar erfiðagreiningar og segir Kári tölurnar eiga við stöðuna eins og hún var í samfélaginu rétt fyrir áramótahelgina.
„Á þeim tíma höfðu 7,7% af þjóðinni verið greind með PCR-prófi en í dag eru það 14%. Við ættum að reikna þá með því að svona 135 þúsund manns hafi smitast fram að þessu,“ segir Kári og bætir við að um mjög grófa útrekninga sé að ræða.
Sami hópur verður aftur skimaður fyrir veirunni og segir Kári almennilegar tölur væntanlegar úr þeirri skimun eftir um þrjár vikur.
„Um áramótin voru 2,6 sinnum fleiri sem höfðu smitast undir fertugu en greinst höfðu með PCR-prófum. Ef við reiknum með svipuðu hlutfali erum við komin vel yfir 30%.“
Fjölmargir hafa greinst með veiruna frá áramótum eða fleiri en þúsund innanlands á hverjum degi. Kári segir að með áframhaldandi sama hraða verði þetta orðið gott í byrjun apríl:
„Mér finnst líklegt þegar ég skoða þetta að þessi faraldur verði búinn hjá okkur í byrjun apríl.“