Hæstiréttur Póllands vísaði forræðismáli frá

Faðirinn hefur ekki hitt börn sín í nær þrjú ár.
Faðirinn hefur ekki hitt börn sín í nær þrjú ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur Póllands hefur vísað frá áfrýjunarmáli pólskrar konu sem fór með börn sem hún á með íslenskum manni til Póllands. Hann hefur ekki séð börnin sín í um þrjú ár.

Yfirdómstóll í Póllandi kvað upp úrskurð í lok ársins 2020 um að konan ætti að fara með börnin til Íslands til að hitta föður þeirra.

Maðurinn er með íslenskt ríkisfang en er upprunalega frá Alsír.

Fróði Steingrímsson, lögmaður mannsins, segir það góðar fréttir að Hæstiréttur hafi ekki snúið neinu við. Hann hefur aftur á móti ekki fengið forsendurnar fyrir niðurstöðu dómstólsins og veit því ekki hvaða þýðingu hún hefur.

„Það tók töluvert langan tíma að fá þetta tekið fyrir Hæstarétt en það er líklegt að þetta verði endanlegt,“ segir Fróði.

Héraðssaksóknari gaf í fyrra út ákæru á hendur konunni fyrir sifjaskaparbrot með því að hafa farið með börnin út til Póllands. Ekki er ljóst hvenær fyrirtaka málsins verður í Héraðsdómi Reykjaness en um lokað þinghald er að ræða.  

Fróði segir að beðið sé eftir niðurstöðunni úr því þinghaldi. „Eftir að hún liggur fyrir þarf að taka sjálfstæða ákvörðun um hvernig hægt er að ná börnunum heim,“ segir hann.

Þar fyrir utan er beðið eftir því að framkvæmdavaldið í Póllandi framfylgi dómi héraðsdóms þar í landi um að börnin fari til Íslands. Fróði segir að slíkt geti reynst erfitt, því pólsk yfirvöld séu annáluð fyrir að draga lappirnar í málum sem þessum.

Gagnrýnir íslensk stjórnvöld

Bæði dómsmála- og utanríkisráðuneytið á Íslandi hafa haft aðkomu að málinu en Fróði segir hana ekki hafa verið nægilega mikla.  

„Það er sorglegt að yfirvöld hérna heima hafa ekki brugðist við nema að ofboðslega takmörkuðu leyti. Það virðist vera sjálfstæð ákvörðun yfirvalda hérna heima að hjálpa ekki í þessu máli. Mér finnst að fólk sé ekki að vinna vinnuna sína,“ greinir hann frá.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert