Hafi keypt vændi af skjólstæðingi SÁÁ

Einar Hermannsson, formaður SÁÁ.
Einar Hermannsson, formaður SÁÁ.

Einar Hermannsson sagði af sér formennsku í SÁÁ fyrr í dag. Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar keypti Einar vændi af konu sem var og er skjólstæðingur SÁÁ. Stundin segist hafa undir höndum gögn sem staðfesta þetta.

Í yfirlýsingu sem Einar sendi frá sér fyrr í dag sagði hann ástæðuna fyrir því að hann segði af sér formennsku vera sú að hann svaraði aug­lýs­ingu á net­inu fyr­ir nokkr­um árum þar sem í boði var kyn­líf gegn greiðslu. Sagðist hann hafi talið sér ranglega trú um að samskiptin væru grafin og gleymd.

Sagði hann ljóst að umræða um það mál væri ein­ung­is til þess fall­in að varpa rýrð á SÁÁ ef hann myndi áfram sitja sem formaður.

Anna Hildur Guðmundsdóttir, stjórnarmaður SÁÁ, sagði við mbl.is í dag að framkvæmdastjórn SÁÁ hafi fyrst haft afspurn af máli Einars síðastliðinn föstudag og fengið það staðfest í dag, hann hafi þá tilkynnt uppsögn sína. 

Konan leiðst út í vændi til að fjármagna neyslu

Í umfjöllun Stundarinnar segir að yfirlýsing Einars hafi birst í kjölfar rannsóknarvinnu Stundarinnar vegna umfjöllunar um vændiskaup hans á árunum 2016-2018 og að Stundin hafi undir höndum gögn sem sýna meðal annars samskipti konu og Einars í skilaboðum á Facebook. Þá hefur Stundin rætt við konuna sem nú er á batavegi eftir langvarandi fíkniefnaneyslu og segist hún hafa leiðst út í vændi til að fjármagna eiturlyfjaneyslu sína og að á því tímabili hafi Einar keypt af henni kynlífsþjónustu. Hún hafi ætlað að kæra en varð hrædd og nú sé málið fyrnt.

Þá segist Stundin hafa heimildir fyrir því að Embætti landlæknis hafi verið upplýst um málið árið 2020 og að minnsta kosti einn stjórnarmaður í framkvæmdastjórn SÁÁ hafi vitað af málinu árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert