Gular viðvaranir verða í gildi víðast hvar á landinu í nótt og á morgun. Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands er verið að íhuga appelsínugula viðvörun á Austfjörðum, þar sem spáð er vestan stormi, 20-28 m/s.
„Veðrið versnar í nótt og versta veðrið verður víðast hvar um og eftir hádegi á morgun,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni.
„Það verður mjög hvasst sérstaklega fyrst hérna á suðvestanverðu landinu, síðan færir mesta hvassveðrið sig austur síðdegis á morgun. Á Vestfjörðum verður ekki jafn hvasst en það verður hríðarveður þar um tíma.“
Um fimmleytið síðdegis á morgun ætti að fara að draga úr vindi á suðvestanverðu og vestanverðu landinu. Um svipað leyti fari að hvessa á Austurlandi og þar fari ekki að draga úr fyrr en aðra nótt.