Reynir segir samhljóm með hugmyndum sínum og lögreglunnar

Reynir er í góðu sambandi við lögregluna vegna rannsóknarinnar og …
Reynir er í góðu sambandi við lögregluna vegna rannsóknarinnar og ber fullt traust til hennar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er búið að teikna upp þetta mál í meginatriðum og nú er bara verið að skoða það. Menn eru á einhverju spori,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, um framgang rannsóknar á innbroti á ritstjórnarnskrifstofu miðilsins og skemmdarverkum á vefnum.

Greint var frá því fyrir helgi að brotist hefði verið inn í bíl Reynis á fimmtudagskvöld þar sem hann stóð á bílastæði við Úlfarsfell. Meðal þess sem var stolið voru lyklar af ritstjórnarskrifstofu Mannlífs sem svo voru notaðir til að fara þar inn í þeim tilgangi að stela tveimur tölvum og eyða öllu fréttaefni út af vefnum.

Lögreglan er með málið til rannsóknar og enn er verið að afla gagna. Meðal annars er kannað hvort efni úr öryggismyndavélum á svæðinu geti nýst við rannsóknina. En rannsókninni miðar áfram, samkvæmt lögreglufulltrúa.

Róbert Wessman sendi frá sér yfirlýsingu

Reynir sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að hann hefði sínar grunsemdir um hverjir hefðu verið að verki. Honum hefði verið hótað og þess krafist að hann afhenti ákveðin gögn. Hann vildi þó ekki fullyrða að málin tengdust.

Skömmu áður en brotist var inn á Mannlíf hafði miðillinn fjallað um mál tengd Róberti Wessman, stofnanda og eiganda Alvotech. Svo var greint frá því að Reyni hefði borist bréf frá þekktri lögfræðiskrifstofu í London, fyrir hönd Róberts, og gerð krafa um öll gögn er vörðuðu hann væru afhent.

Um helgina sendi Róbert sér frá sér yfirlýsingu og sagðist finna sig knúinn til að tjá sig um málið, þar sem ýjað hefði verið að því að hann tengdist innbrotinu. Það væri fráleitt, enda væru árásir á fjölmiðla aðför að lýðræðinu og ættu ekki að líðast. Sagðist hann jafnframt vona að Reynir fengi öll sín gögn aftur og tjónið bætt. Hann hefði þó kært umfjöllun Reynis og Mannlífs til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.

Sagði lögreglu það sem hann uppgötvaði um helgina

Í samtali við mbl.is í dag segir Reynir að samhljómur sé með hans hugmyndum og lögreglunnar í málinu. „Það fer alveg saman mín skoðun og lögreglunnar í því. Lögreglan er að gera það sem hún á að gera. Ég ber fullt traust til þeirra.“

Hann sé í góðu sambandi við lögregluna og gefi henni allar upplýsingar sem hann kemst yfir.

„Ég talaði við þá í morgun og gaf þeim upp það sem ég hef uppgötvað um helgina. Ég er að skoða þetta og þetta teiknast þannig upp að ég þykist vita hvernig þessi mál voru vaxin.“

Hann segist nú bara bíða eftir að málinu ljúki, enda sé það ótrúlega harðsvírað.

„Það er setið um heimilið mitt, ég er eltur og það er brotist inn í bílinn minn, unnin skemmdarverk þar og stolið einhverju sem þurfti ekkert að stela og menn græða ekkert á. En þetta kallast svolítið á. Sumpart er þetta eins og það séu einhverjir dópistar að verki, eða menn sem eru ekki með fulla fimm, en svo sér maður hvernig þetta var skipulagt og agað hérna inni. Það er skipulega gengið til verks. Það er einhver sem þekkir til hérna sem fer inn,“ segir Reynir nokkuð viss í sinni sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert