Fimm björgunarsveitir hafa verið kallaðar út á Suðurlandi og suðvesturhorni landsins á síðasta klukkutímanum til að festa þakplötur og grindverk sem hafa verið að fjúka. Appelsínugul viðvörun er í gildi fram eftir degi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Austfjörðum og Suðausturlandi.
Í Vestmannaeyjum hafa björgunarsveitarmenn staðið í ströngu við að festa niður þakplötur og grindverk, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum. Þá hefur þurft að festa niður þakplötur á byggingasvæði í Ölfusi. Einnig hafa þök fokið af hesthúsi og geymsluskúrum.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að nánast öll útköllin hingað til hafi snúið að lausum þakplötum. Björgunarsveitir hafa verið að sinna slíkum verkefnum í Vestmannaeyjum, Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Hellu.
„Það var gert ráð fyrir versta veðrinu um og upp úr hádegi þannig að þetta passar nú allt. Við hvetjum fólk bara til að nýta daginn í einhver rólegheit því verstu viðvaranirnar eru í gildi fram á kvöld. Endilega fylgjast með skilaboðum,“ segir Davíð, en björgunarsveitir eru áfram í viðbragðsstöðu.
Þá bendir hann á að sérstaklega hafi verið varað við því að ekkert ferðaveður yrði víða um land og miklar líkur séu á foki á lausamunum.
„Fólk hefur bara varann á og ef það verður vart við einhver vandræði þá bara hringir það í neyðarlínuna og tilkynnir um það.“