Býst við fjölgun smita í skólum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Núverandi reglur um sóttkví og einangrun hafa valdið miklum fjarvistum í skólum og á vinnumarkaði með tilheyrandi truflunum. Mörg börn hafa endurtekið þurft að vera í sóttkví og hafa séfræðingar í velferð barna bent á að slíkt geti haft neikvæðar afleiðingar. Því lagði sóttvarnalæknir það til að börn á leik- og grunnskólaaldri þurfi ekki að fara í smitgát eða sóttkví vegna smita í skóla.

Þetta kemur fram í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis vegna breytinga á sóttkví. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra greindi frá breytingunum að loknum ríkisstjórnarfundi en samkvæmt þeim eru börn og unglingar algjörlega undanþegin reglum um smitgát og sæta eingöngu sóttkví ef um smit á heimili er að ræða.

Á þessari stundu tel ég að afléttingar þurfi að hefja með því að einfalda enn frekar ýmsar leiðbeiningar um sóttkví og sýnatökur og í framhaldi af því létta á ýmsum takmarkandi samfélagslegum aðgerðum. Mikilvægt er hins vegar að aflétta í hægum en öruggum skrefum. Þær breytingar sem hér eru lagðar til munu líklega auka smit í skólum og hjá fjölskyldum barna á leik og grunnskólaaldri,“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.

Tilslakanir leiði til fjölgunar smita hjá eldra fólki

Enn fremur segir að tilslakanir í kjölfarið á ýmsum samfélagslegum aðgerðum muni á hinn bóginn að líkindum leiða til fjölgunar smita í eldri aldurshópum. Mikilvægt sé hins vegar að sú fjölgun leiði ekki til fjölgunar á alvarlegum veikindum og spítalainnlögnum.

„Með neðangreindum tillögum er lögð áhersla á að einfalda reglur um sóttkví og smitgát, og draga á sama tíma úr PCR sýnatökum. Með því móti mun létta á mörgum takmörkunum sem nú hvíla á einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum og ýmissi starfsemi. Hins vegar munu tölulegar upplýsingar um samfélagsleg smit verða ónákvæmari en áður og líklegt að samfélagslegum smitum muni fjölga,“ segir í minnisblaði Þórófls en tillögur hans má sjá hér eða neðan:

1. Allir með einkenni sem bent geta til COVID-19 fari í PCR sýnatöku.

2. Covid-göngudeild Landspítalans fylgist áfram með þeim einstaklingum sem greinast með COVID-19, sérstaklega þeim sem kunna að fá alvarleg veikindi.

3. Smituðum einstaklingum verði áfram gert að dvelja í einangrun í alls 7 daga. Starfsmenn covid-göngudeildar geti þó eins og áður ákveðið lengri einangrun sem byggir á læknisfræðilegu mati.

4. Almennar leiðbeiningar um einangrun verði óbreyttar.

5. Útsettir einstaklingar innan heimila. a. Þríbólusettir og tvíbólusettir sem hafa áður greinst með COVID-19. i. Verði gert að fara í smitgát sem lýkur með neikvæðu PCR prófi á 5. degi. Leiðbeiningar um smitgát má sjá hér að neðan. b. Allir aðrir heimilismenn fari í 5 daga sóttkví sem endar með neikvæðu PCR prófi á 5. degi. c. Einstaklingar í sóttkví eða smitgát á heimili þar sem aðili dvelur í einangrun, losna ekki úr sinni sóttkví/smitgát með neikvæðu PCR prófi fyrr en degi eftir að einangrun lýkur.

6. Útsettir einstaklingar utan heimilis án tillits til bólusetningastöðu eða aldurs. a. Fari í smitgát í 5 daga án PCR prófs. i. Fari í PCR sýnatöku ef einkenni koma fram sem bent geta til COVID-19. b. Börnum á leik- eða grunnskólaaldri verði ekki gert að fara smitgát/sóttkví.

7. Kennarar í leik- og grunnskólum verði hvattir til að gæta vel að sóttvörnum, nota veiruheldar grímur og andlitshlífar sérstaklega ef þeir hafa ekki fengið örvunarskammt (þriðja skammt) bóluefnis. Muna þarf að full virkni örvunarskammts fæst ekki fyrr en 14 dögum eftir bólusetninguna.

8. Sóttkví a. Fyrri leiðbeiningar um sóttkví verði óbreyttar.

9. Smitgát a. Með smitgát er átt við að viðkomandi beri grímu í margmenni og þegar ekki verði hægt að viðhafa tveggja metra nándarreglu, úti sem inni. Börn á grunnskólaaldri verði undanþegin grímuskyldu. Forðast skuli mannmarga staði og sleppa umgengni við viðkvæma einstaklinga. Þegar smithætta er mikil eins og inni á heimilum, ljúki smitgát með neikvæðu PCR prófi á 5. degi. Annars lýkur smitgát á 5. degi án PCR prófs. b. Heilbrigðisstofnunum, hjúkrunarheimilum og öðrum stöðum þar sem viðkvæmir einstaklingar fyrirfinnast verði heimilt að setja sér sínar eigin reglur um sóttkví, smitgát og sýnatökur. 1

0. Eins og áður sagði er mikilvægt að fylgjast með framgangi faraldurs og endurskoða þessar reglur ef þurfa þykir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert