Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tóku í gær formlega við óháðri félagshagfræðilegri greiningu á lagningu Sundabrautar og skilagrein starfshóps Vegagerðarinnar um lagningu brautarinnar.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að greiningin hafi leitt í ljós 186-238 milljarða króna ábata fyrir samfélagið eftir útfærslu Sundabrautar með Sundabrú eða jarðgöngum. Mestur ábati felist í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu.
Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þúsund km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar. Næstu skref eru að hefja undirbúning á umhverfismati, víðtæku samráðsferli og nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi en miðað er við að Sundabraut verði opnuð árið 2031.
Í færslu á Facebook-síðu sinni greinir Sigurður Ingi frá því að framkvæmdin verði ein stærsta einstaka vegaframkvæmd Íslandssögunnar.
„Hún er gríðarlega arðsöm fyrir samfélagið, innri vextir eru um 11% hvort sem hún er um brú eða verður í jarðgöngum og þjóðhagslegur ábati til næstu 30 ára er áætlaður1 86–236 milljarðar kr.,“ skrifar hann í færslu sinni.
Þá skrifar hann einnig að tíminn næstu fjögur árin verði vel nýttur með viðtölum við íbúa og aðila í nærumhverfi, breytingum á skipulagi, gerð umhverfismats og einnig að hönnun fari af stað á næstunni.
„Útboðsferlið tekur þrjú til fjögur ár og í framhaldi mætir grafan á staðinn árið 2026 og framkvæmdum lýkur með þverun Kollafjarðar árið 2031.“