Nokkrum flugferðum frá Keflavíkurflugvelli var aflýst í morgun vegna veðurs. Mjög hvasst er víða á landinu og Veðurstofa Íslands segir ekkert ferðaveður í dag á landinu öllu.
Play varð að aflýsa tveimur ferðum nú í morgun og er ekki eina flugfélagið sem varð að gera það. Icelandair aflýsti a.m.k. fimm flugferðum í morgun; til París, Amsterdam, London, Kaupmannahafnar og Dublin. Wizz Air og Easy Jet seinkuðu sínum flugferðum í morgun.
Þá hefur flestum innanlandsflugum á vegum Icelandair verið aflýst í dag.
Play aflýsti ferðum til Alicante og Tenerife en farþegar höfðu þegar verið beðnir um að mæta fyrr til Keflavíkur svo hægt væri að flýta brottför. Það reyndist síðan ekki hægt og var ferðunum aflýst.
„Veðrið er eitthvað sem við ráðum alls ekki við og farþegar sýna þvi sem betur fer skilning þó þeir þurfi að fresta því um einn dag að komast í sólina. Þeir fá upplýsingar um næstu skref innan skamms,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, við mbl.is.
„Við höfum aflýst öllu flugi í morgunsárið frá Keflavík. Það eru fimm brottfarir og svo aftur til baka frá Evrópu. Við erum að reyna að koma fólki til baka með öðru flugi á morgun og erum að skoða með tvö flug frá Bandaríkjunum seinnipartinn í dag,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.