Flugfreyjurnar höfðu betur gegn Icelandair

Niðurstaða Félagsdóms var að félaginu hafi verið skylt að afturkalla …
Niðurstaða Félagsdóms var að félaginu hafi verið skylt að afturkalla uppsagnirnar eftir starfsaldri. mbl.is/Árni Sæberg

Flugfreyjufélag Íslands hafði betur gegn Icelandair í Félagsdómi og bar því flugfélaginu að afturkalla uppsagnir út frá starfsaldurslista sumarið 2020. Þetta staðfestir Haukur Örn Birgisson, lögmaðurinn sem flutti málið fyrir ASÍ, fyrir hönd Flugfreyjufélagsins.

Um 900 flugfreyjum var sagt upp störfum í apríl 2020 í kjölfar faraldursins og endurskipulagningar hjá Icelandair.

Sumarið sama ár, þegar línur tóku að skýrast í fluggeiranum var síðan 201 flugfreyja ráðin á nýjan leik og fór flugfélagið ekki eftir starfsaldri.

Niðurstaða Félagsdóms, sem er endanleg, var að félaginu hafi verið skylt að afturkalla uppsagnirnar eftir starfsaldri. Félagsdómur féllst á kröfur FÍ og er Icelandair gert að greiða ASÍ 800 þúsund í málskostnað.

Boltinn hjá Icelandair

Haukur segir niðurstöðuna gríðarlegt ánægjuefni fyrir Flugfreyjufélagið sem nú hefur staðið í ágreininginum í tæp tvö ár. 

„Við höfum alltaf talið að félaginu hafi verið óheimilt að velja hvaða starfsmenn kæmu til baka án þess að taka tillit til starfsaldurs flugfreyjanna.

Nú sé það viðurkennt með dómi að brotið hafi verið gegn rétti 69 flugfreyja.

Spurður hvað taki nú við segir Haukur boltann vera hjá Icelandair.

„Það þarf að gera upp við þessa starfsmenn og boltinn kannski svolítið hjá Icelandair hvað félagið hyggst gera til þess að bæta þessu fólki þessa skerðingu sem það varð fyrir.

Og það verða væntanlega samtöl á næstu dögum um framhald málsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Freysteinn Guðmundur Jónsson: FFÍ
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka