Framkvæmdastjórn ræðir mál Einars í dag

Framkvæmdastjórn SÁÁ stefnir á að funda í dag vegna ásakan …
Framkvæmdastjórn SÁÁ stefnir á að funda í dag vegna ásakan á hendur Einars Hermannssonar, fráfarandi formanns samtakanna. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Framkvæmdastjórn SÁÁ stefnir á að funda í dag vegna ásakana á hendur Einari Hermannssyni, fráfarandi formanni samtakanna, og að fundinum loknum gefa út yfirlýsingu þar sem greint verður frá næstu skrefum. Þetta segir Anna Hildur Guðmundsóttir, stjórnarmaður SÁÁ, í samtali við mbl.is.

„Við erum öll í vinnu annars staðar þannig að við erum bara að reyna púsla þessu saman og hittast.“

Segir málið hafa komið stjórninni í opna skjöldu

Lítið annað sé þó hægt að segja að svo stöddu enda viti sitjandi stjórn ekki meira um málið en það sem hefur komi fram í fjölmiðlum fram að þessu, að sögn Önnu.

„Við fengum fyrst fréttir af þessu á föstudaginn og hittumst strax í gær til að ræða þetta. Í kjölfarið birtum við tilkynningu vegna málsins á vefsíðu samtakanna.“

Í yfirlýsingunni var greint frá því að Einar Hermannsson hefði sagt af sér sem formaður SÁÁ af persónulegum ástæðum og vísað til tilkynningar Einars þess efnis.

Í tilkynningunni, sem Einar sendi á fjölmiðla í gær, viðurkennir hann að hafa fyrir nokkrum árum svarað auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu. 

„Sú hegðun er ófyr­ir­gef­an­leg en ég taldi mér rang­lega trú um að þau sam­skipti væru graf­in og gleymd og þau hafa ekki haft áhrif á störf mín fyr­ir SÁÁ. Ljóst er hins veg­ar að umræða um þetta mál er ein­ung­is til þess fall­in að varpa rýrð á SÁÁ ef ég sit þar áfram sem formaður,“ seg­ir í tilkynningu Ein­ars.

Ég iðrast að hafa farið þessa leið og að hafa valdið fjöl­skyldu minni sárs­auka vegna hegðunar minn­ar. Bið ég alla þá sem málið varðar af­sök­un­ar á fram­ferði mínu,“ seg­ir þar enn­frem­ur.

Einar Hermannsson sagði af sér formennsku í SÁÁ í gær.
Einar Hermannsson sagði af sér formennsku í SÁÁ í gær. mbl.is/Arnþór

Eðlilegt að stjórnin greini frá næstu skrefum

Í frétt Stundarinnar um málið kemur fram að konan sem Einar á að hafa keypt kynlífsþjónustu af hafi heimildir fyrir því að manneskju í framkvæmdastjórn SÁÁ hafi verið gert viðvart um vændiskaupin fyrir tæpum tveimur árum. Spurð segist Anna ekki getað staðfest þetta.

„Ég veit ekki til þess að fyrri stjórn hafi heyrt eitthvað um þetta. Ég get bara ekki svarað því þar sem ég sat ekki í þeirri stjórn.“

Veit ekki um viðbragðsáætlun

Þótt hún sitji í núverandi stjórn SÁÁ segist hún ekki vita hvort til sé einhvers konar viðbragðsáætlun eða verkferlar sem samtökin fari eftir þegar mál af þessu tagi koma upp innan þeirra, innt eftir því.

Þá gat hún ekki svarað því hvort samtökin hygðust styðja sérstaklega við konuna sem ber Einar sökum í málinu, en samkvæmt heimildum Stundarinnar er konan núverandi skjólstæðingur SÁÁ.

„Ég veit bara ekkert meira um málið. Við eigum eftir að hittast og munum sennilega gera það í dag. Svo gefum við líklegast út einhvers konar yfirlýsingu í kjölfarið.“

Í samtali við mbl.is í gær sagði Anna að boðað yrði til fundar í aðalstjórn SÁÁ mjög fljótlega og þá yrði nýr formaður kosinn. Aðspurð segir hún ekki búið að ákveða hvenær sá fundur muni fara fram. Framkvæmdastjórnin stefni þó að því að koma saman til fundar í dag.

„Við þurfum bara að ræða saman og sjá hvaða upplýsingar við höfum. Svo munum við tilkynna næstu skref enda er það bara eðlilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert