Hvorki landlæknir né embætti landlæknis kannast við að hafa fengið upplýsingar um mál konu sem segir Einar Hermannsson, fráfarandi formann SÁÁ, hafa keypt af sér vændi. Þetta segir í skriflegu svari frá embættinu við fyrirspurnum mbl.is um málið.
Í frétt Stundarinnar um málið segir að Einar hafi á árunum 2016 til 2018 keypt vændisþjónustu af konu sem var á þeim tíma virkur fíkniefnaneytandi og að hún sé nú skjólstæðingur SÁÁ.
Þar segir jafnframt að Stundin hafi heimildir fyrir því að embætti landlæknis hafi verið upplýst um málið árið 2020 og að heilbrigðisstarfsmaður hafi svarað í tölvupósti að málið ætti að fara í farveg. Nú liggur þó fyrir að málið hafi ekki farið í neinn farveg enda hafi embættinu aldrei borist tilkynning um málið.
„Landlæknir og embætti landlæknis kannast ekki við að hafa fengið neinar upplýsingar um málið, hvorki með formlegum né óformlegum hætti. Embættið frétti af málinu í gær,“ segir í svari frá embættinu.
Í svarinu lýsir embættið jafnframt yfir furðu sinni á að hafa verið dregið inn í þetta mál í umfjöllun Stundarinnar.
„Embættið hefur gert athugasemd við Stundina og krafið hana um frekari upplýsingar.“
Þá sé málið ekki til skoðunar hjá embættinu enda sé lögbundið hlutverk embættis landlæknis að hafa eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisstofnunum en ekki almannaheillasamtökum á borð við SÁÁ.
„Stjórnarmenn eða formenn SÁÁ koma ekkert að skjólstæðingum SÁÁ eða meðferðarstarfi. Það eru regnhlífarsamtök sem safna fé, byggir húsnæði og leggur til meðferðar skjólstæðinga í viðbót við samninga ríkisins.“
SÁÁ ráði þó framkvæmdastjóra lækninga/forstjóra sjúkrahússins Vogs sem sé ábyrgur fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt sé til fólks með fíknisjúkdóma og þeirra aðstandenda.
Heilbrigðisþjónustan sé veitt á grundvelli þjónustusamninga við ríkið, við SÍ, undir eftirliti EL, fer að lögum um heilbrigðisþjónustu, sjúkraskrá, barnavernd o.fl.
Á meðferðarsviði vinni eingöngu heilbrigðisstarfsmenn og nemar í heilbrigðisstéttum. Með ferðin sé svo veitt á sjúkrahúsinu Vogi, eftirmeðferðarstöðinni Vík og á göngudeildum SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri.
„Þannig heyrir heilbrigðisþjónusta sem veitt er á sjúkrahúsinu Vogi, eftirmeðferðarstöðinni Vík og göngudeildum undir eftirlit embættis landlæknis en ekki Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandanna (SÁÁ),“ segir í svari frá embættinu.
Enn fremur segir í svarinu að ábendingum um saknæmt athæfi, hvort sem um sé að ræða heilbrigðisstarfsmenn eða aðra, eins og í umræddu máli, yrði þó ávallt komið áfram til lögregluyfirvalda.
„Hér er þó ekki um að ræða heilbrigðisstarfsmann og málið myndi því ekki heyra undir embætti landlæknis.“