Endurupptökudómur hefur samþykkt beiðni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar um endurupptöku á máli gegn þeim í tengslum við skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums. Jón Ásgeir og Tryggvi voru í málinu, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur, dæmd í tengslum við rekstur félaganna og hlutu þau refsingu og þurftu að greiða sektir. Hafði þeim áður verið gert að greiða sektir með úrskurði yfirskattanefndar á árinu 2007.
Þetta er í annað skiptið sem samþykkt er að taka málið upp að nýju, en upphaflegur dómur féll í Hæstarétti í febrúar 2013. Endurupptökunefnd samþykkti beiðni Jóns Ásgeirs og Tryggva um að taka málið upp árið 2018, en það kom í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um að íslenska ríkið hefði brotið á þeim þegar komi að banni við endurtekinni refsimeðferð, þ.e. að refsað sé oftar en einu sinni fyrir sama brot.
Hæstiréttur vísaði endurupptekna málinu hins vegar frá árið 2019. Í niðurstöðu dómsins segir að í íslenskum lögum sé ekki að finna heimild til endurupptöku máls í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum, við þær aðstæður sem uppi voru í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva.
Í niðurstöðu Endurupptökudóms núna er vísað til þess að með breytingar á lögum um dómstóla frá árinu 2020, þar sem Endurupptökudómi var komið á fót, hafi m.a. orðinu „upplýsingar“ verið bætt við málsgrein laganna um skilyrði fyrir endurupptöku sakamála. Voru skilyrði þannig rýmkuð, en áður hafði aðeins verið horft til þess að taka mætti mál upp að nýju ef „ný gögn“ hefðu komið fram.
Segir í dómi Endurupptökudóms að með rýmkun á skilyrðum endurupptöku hafi verið leitast við að veita úrlausnum mannréttindadómstólsins, þar sem fallist er á að brotið hafi verið gegn ákvæðum mannréttindasáttmálans við meðferð mála fyrir íslenskum dómstólum, meira vægi en áður hafi verið.
Bent er á að í dómi Hæstaréttar vegna fyrri endurupptökunnar hafi rétturinn talið skorta heimild til endurupptöku máls í kjölfar dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Með breytinum á lögum um dómstóla frá 2020 sé þessi heimild nú til staðar. Telur Endurupptökudómur að taka verði afstöðu til þess hvernig Hæstiréttur hefði dæmt í málinu ef sjónarmið sem felast í dómi mannréttindadómstólsins hefðu verið kunn þegar dómur Hæstaréttar frá árinu 2013 hefði legið fyrir.
Er því fallist á endurupptöku málsins og talið að taka þurfi dóminn upp í heild, en ríkissaksóknari hafði í varakröfu sinni vegna endurupptökunnar farið fram á að ef til endurupptöku kæmi yrðu aðeins tveir kaflar ákærunnar enduruppteknir.