Margrét gefur kost á sér í Garðabæ

Margrét gefur kost á sér í fimmta sætið í prófkjörinu …
Margrét gefur kost á sér í fimmta sætið í prófkjörinu í Garðabæ.

Margrét Bjarnadóttir, dóttir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, gefur kost á sér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, sem fer fram þann 5. mars næstkomandi. Hún greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Margrét, sem er þrítug, er með sveinspróf í matreiðslu og stundar nám í lögfræði við Háskólann. Hún býr í Garðabæ ásamt kærastanum sínum og syni.

„Í mínum huga er mikilvægt að listinn sé samsettur af fjölbreyttu fólki á öllum aldri. Það er nauðsynlegt að hafa ungt fólk á lista Sjálfstæðisflokksins sem hefur fjölbreytta sýn á samfélagið sem við búum saman í,“ skrifar Margrét.

Leggur áherslu á fjölskyldur, leikskóla- og húsnæðismál

Hún segist leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar, leikskóla- og húsnæðismál. Sem móðir barns á leikskóla hafi hún mikinn metnað til að gera starfsumhverfi leikskólanna betra, enda auki það lífsgæði fjölskyldna að reknir séu góðir leikskólar í Garðabæ. Einnig sé mikilvægt að öll börn hafi tækifæri til að þroska hæfileika sína í félagsstarfi í bænum.

Þá segir hún nauðsynlegt að gera ungu fólki kleift að kaupa sér eign í Garðabæ. Það þurfi að vera raunverulegur kostur fyrir ungt fólk að búa í Garðabæ. „Það skiptir mig miklu máli að hér sé gott að búa og að við séum sveitarfélag sem tekur vel á móti ungum sem öldruðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert