Íslendingar bera höfuð og herðar yfir aðra Evrópubúa í notkun netsins til náms samkvæmt frétt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, sem byggð er á könnunum í 30 Evrópulöndum.
Þar kemur í ljós að mun fleiri einstaklingar á aldrinum 16 til 74 ára á Íslandi hafa tekið þátt í netnámskeiðum eða notað námsefni sem þeir útveguðu sér á netinu en íbúar samanburðarþjóðanna.
Fram kemur að á seinustu þremur mánuðunum áður en könnunin var gerð á seinasta ári höfðu 77% svarenda á Íslandi farið á netnámskeið eða notfært sér námsefni á netinu. Írar eru í öðru sæti en þar höfðu 46% farið á netnámskeið eða sótt sér námsefni á netinu á seinasta ári og Eistlendingar koma næstir (42%). Hlutfallið er hins vegar lægst í Rúmeníu (10%), Búlgaríu (12%) og Króatíu (18%).
Fjarnám á netinu færðist víðast hvar í vöxt á árunum 2020 og 2021 á tímum heimsfaraldursins skv. umfjöllun Eurostat. Hér á landi var hlutfall þeirra sem fóru á námskeið á netinu eða notuðu námsefni þaðan 73% á árinu 2019.