Ríkið og ALC áfrýja 2,5 milljarða dómi

Trygging Isavia fór með Airbus-þotunni sem flogið var brott.
Trygging Isavia fór með Airbus-þotunni sem flogið var brott. mbl.is/​Hari

Íslenska ríkið og flugvélaleigan ALC hafa áfrýjað dómi héraðsdóms þar sem þeim var gert að greiða Isavia 2,5 milljarða króna. Tengist málið deilum Isavia og ALC um kyrrsetningu á Airbus-þotu gegn skuldum flugfélagsins WOW air og niðurstöðu dómara við Héraðsdóm Reykjaness sem Isavia taldi að hafi komist að rangri niðurstöðu í fyrra með saknæmum hætti. Málið er nú komið á áfrýjunarskrá Landsréttar.

Við gjaldþrot WOW air ákvað Isavia að kyrr­setja vél­ina og neitaði að leyfa henni að fljúga brott af landi nema ALC greiddi all­ar skuld­ir WOW sem námu um tveim­ur millj­örðum króna.

ALC neitaði því að greiða skuld­ir WOW og vegna þess að þeir töldu sig ekki ábyrga fyr­ir skuld­um WOW. Fór deil­an í gegn­um öll þrjú dóm­stig­in, Héraðsdóm, Lands­rétt og Hæsta­rétt fyr­ir rúm­um tveim­ur árum.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykja­ness sem féll sum­arið 2019 gerði Isa­via að af­henda ALC þot­una en ALC var þó gert að greiða þær skuld­ir sem lágu á vél­inni sjálfri. Ástríður Gríms­dótt­ir, héraðsdóm­ar­inn í mál­inu, taldi þá ekki ástæðu til þess að fresta réttaráhrif­um úr­sk­urðar­ins og því var hægt að fljúga þot­unni úr landi.

Isa­via taldi dóm­ar­ann hafa, með þess­ari ákvörðun sinni, svipt fé­lagið trygg­ingu fyr­ir tveggja millj­arða skuld og höfðaði Isa­via því skaðabóta­mál á hend­ur ís­lenska rík­inu og flug­véla­leig­unni ALC.

Isavia höfðaði mál vegan þessa og í desember komst Björn Þorvaldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að dómurinn sem féll í héraði sumarið 2019 hafi verið rangur. Telur Björn að Ástríður hafi litið fram hjá rökstuðningi í úrskurði Landsréttar í sama máli og haldið sig fremur við túlkun á ákvæði sem fór í berhögg við túlkun Landsréttar. Þessa háttsemi verði að meta dómaranum til sakar því hún hafi komist að rangri niðurstöðu með saknæmum hættu og sýnt af sér saknæma háttsemi þegar hún féllst ekki á að málskot myndi fresta aðfarargerð.

Var því niðurstaða Björns að Isavia hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa og að íslenska ríkið og ALC beri á því ábyrgð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert