Endurupptökudómur hefur fallist á beiðni fjárfestisins Bjarna Ármannssonar um endurupptöku á skattamáli þar sem hann var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 36 milljónir fyrir að hafa ekki staðið skil á 20,5 milljónum í fjármagnstekjur árin 2007-9.
Eftir rannsókn skattrannsóknarstjóra árið 2010 og úrskurð ríkisskattstjóra árið 2012 greiddi Bjarni umrædda vanframtalda skatta auk 25% álags, en hann undi þeim úrskurði. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu hins vegar til sérstaks saksóknara sem gaf út ákæru sama ár. Dæmi héraðsdómur hann síðar í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu á 36 milljónum sem Hæstiréttur þyngdi svo árið 2014 í átta mánuði.
Bjarni kærði ríkið vegna málalyktanna síðar sama ár til Mannréttindadómstóls Evrópu og taldi að um tvöfalda refsingu væri að ræða. Komst MDE að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið á honum með því að refsa Bjarna í tvígang fyrir sama brot.
Dómurinn er hliðstæður við dóm Mannréttindadómstólsins 2017 í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar kaupsýslumanns gegn íslenska ríkinu, en samhliða því að samþykkja endurupptöku máls Bjarna féllst Endurupptökudómstóll einnig á endurupptöku máls Jóns Ásgeirs og Tryggva.